70
- Gengur að skríninu, opnar það, og tekur upp úr því peningapoka, leggur hann á borðplötuna.
Eigðu þetta, þú getur talið þá seinna, þegar jeg er farinn.
Loftur
- kyssir föður sinn.
Ráðsmaðurinn
Vertu ekki að þakka mjer. Alt, sem jeg læt þjer í tje, er mjer sjálfum til gleði.
- Lokar skríninu og leggur lykilinn í skúffuna.
Nú fer jeg inn til biskupsins og ráðgast við hann um ferðina.
- Nemur staðar.
Ef þú vilt gleðja föður þinn, þá reyndu, áður en þú ferð hjeðan, að ná ástum ungrar stúlku af göfugum ættum. Jeg hygg, að þú munir ráða í það, við hverja jeg á. Þegar þú kemur heim aftur úr utanförinni, kynni það að vera orðið um seinan. Og í útlöndum verða óefað margar freistingar á vegi þínum. Gegn þeim er engin vörn betri en að vita einhverja bíða sín með óbilandi trausti. Það fjötrar hendur lostans. Og yrðir þú fyrir því sama og Kjartan Ólafsson, að þú freistaðist til að gleyma landinu þínu, þá veit jeg að hún mundi heilla þig heim. Ef þú ílengdist í útlöndum, mundi mjer finnast að jeg hefði mist þig, þó að þú ynnir þjer frægð og frama. Sonur minn!