Þessi síða hefur verið prófarkalesin
74
- Tekur í höndina á henni.
Veistu það, kæra hönd, að nú á jeg þig. Jeg hef margsinnis sjeð þig flögra með nálina og þráðarspottann eins og smáfugl, sem flýgur með strá í nefinu til þess að byggja hreiðrið sitt.
- Brosir.
Jeg fyrirgef þjer allar snjókúlurnar, sem þú hefur kastað framan í mig.
- Hlær.
Og kinnhestinn, sem þú gafst mjer einu sinni.
Dísa
Þú ertir mig.
Loftur
Jeg man, hvað þú varst hrædd. Þú þaust út úr stofunni eins og eldibrandur, út á hlað og ofan allan völlinn — en sú ferð, sem var á þjer. Jeg náði þjer ekki fyrri en niður við á.
- Þagnar alt í einu við óþægilega hugsun.
Dísa
Þá varst þú vænn. Þú hlífðir mjer við skömmum.
Loftur
- er staðinn á fætur.
Jeg vildi, að dagurinn í dag væri liðinn.
Dísa
- stendur á fætur.
Því óskarðu þess?