82
Loftur
Hvað gat jeg vitað, annað en það sem jeg hjelt. Maðurinn ræður ekki yfir tilfinningum sínum.
Steinunn
Það eru til gerðir, sem styrkja tilfinningarnar. Þú krafðist alls af mjer, án þess að gefa í staðinn alt það, er stóð í þínu valdi. Því sagðir þú ekki föður þínum frá ást þinni. Hefðir þú vogað því mín vegna, værir þú öðruvísi við mig nú.
Loftur
Þú vilt ekki láta þjer skiljast, að jeg var neyddur til þess að vera þögull gagnvart föður mínum.
Steinunn
Þú mátt ekki bregðast mjer, Loftur. Jeg skal reynast þjer góð kona. Ef þú lendir í fátækt og raunum, skal jeg vera jafnglöð eins og þó við lifðum í auðsæld og hamingju. Jeg óttast stundum að þjer finnist jeg ekki vera þjer samboðin og þess vegna þyki þjer ekki vænt um mig — en þess þarftu ekki, það munt þú fá að sjá. Fái jeg að vera heitmey þín fyrir allra manna augliti, muntu ekki hitta neina stúlku, sem ber höfuðið hærra en jeg.
- Gengur eitt spor.
Fótatak mitt skal vera lofsöngur um þig.