Fara í innihald

Blaðsíða:Galdra-Loftur (1915).djvu/95

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur verið prófarkalesin

91

að þú sjert sonur ráðsmannsins. Biskupinn gerir engan greinarmun á ríkum og fátækum — og frúin verður óefað siðavönd, þar sem þú átt hlut að máli. Allar framtíðarvonir þínar verða að engu. Það verða stór vonbrigði fyrir föður þinn. Gömlum manneskjum getur orðið svo hlægilega mikið um vonbrigði.

Hlær.

— Þær geta dáið af þeim. Þú ert einkasonurinn, og þú verður honum til vansæmdar. Og ekki mun biskupsdótturinni falla það ljettara. Hún heldur að þú sjert göfuglyndur maður. Ekkert er jafnsárt eins og að komast að því, að sá, sem á huga manns og hjarta, sje varmenni. Ef jeg ljósta þessu upp, þá missir þú ekki eingöngu hana, heldur eitrarðu líka alla æfi hennar.

Loftur

Þú hatar mig.

Steinunn

ræður sjer ekki.

Barnið þitt ófætt hatar þig með minni sál.

Loftur

eftir augnabliks þögn.

Hvað vinnurðu með því að eyðileggja mig? Þú eyðileggur um leið sjálfa þig. Er það til þess að hefna þín?