Fara í innihald

Blaðsíða:Galdra-Loftur (1915).djvu/97

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur verið prófarkalesin

93

Steinunn

gengur á eftir honum.

Jeg vil ekki, að frumgetna barnið mitt verði föðurlaus vesalingur. Jeg ímynda mjer, að faðir þinn verði sömu skoðunar. Jeg ímynda mjer, að honum finnist það skylda þín, að þú viðurkennir barnið þitt. Því jeg býst ekki við, að þú neitir því, að þú sjert faðirinn.

Heldur niðri í sjer andanum.

Loftur

Nei, því neita jeg ekki.

Sest.

Steinunn

dregur andann djúpt.

Jeg skal bíða þín í eins mörg ár og þú æskir. Þegar þú á þínum tíma kemur frá útlöndum, verður dáðst að þjer fyrir það, að þú giftist unnustu þinni frá yngri árunum — bláfátækri stúlku.

Loftur

er búinn að ná sjer.

Samviska mín segir mjer, að jeg ætti að kasta allri hamingjuvon á glæ og gera skyldu mína.

Stendur upp.

En jeg get það ekki! Jeg vil það ekki! Jeg er þar að auki í vafa um, hvort samviskan hefur á rjettu að standa. Þú kallaðir mig varmenni.