Fara í innihald

Blaðsíða:Galdra-Loftur (1915).djvu/98

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur verið prófarkalesin

94

Allir aðrir munu samsinna því. Jeg óttast það ekki. Ef þú hefðir undireins sagt mjer, að þú værir barnshafandi, svo engin hrakyrði hefðu farið á milli okkar, myndi jeg ef til vill hafa verið svo veiklyndur, að jeg hefði fylgt því, sem kallað er boð skyldunnar. Jeg veit það ekki. Kæri mig heldur ekki um að vita það. Þú getur eyðilagt fyrir mjer framtíðarvonir mínar. Þú getur gert föður minn að ógæfusömum manni. Þú getur tekið frá mjer stúlkuna, sem jeg ann. En þjer er um megn að hindra mig frá því, að lifa og vinna í einveru og geyma í sál minni þá endurminningu, sem er það hreinasta og fegursta, sem jeg á.

Steinunn

Gleymirðu alveg barninu?

Loftur

Jeg lofaði þjer, að jeg skyldi sjá um, að koma því í góðra manna hendur — manna, sem ef til vill sýndu því meiri ástúð, en mjer sjálfum væri unt.

Steinunn

Veist þú, hvað mikla ástúð ókunnugar manneskjur sýna barni, sem þær taka að sjer fyrir lítilfjörlegt endurgjald? Hugsaðu þjer, að það væru vondar manneskjur. Hugsaðu þjer, að það fengi það uppeldi, að það yrði glæpamaður.