Fara í innihald

Blaðsíða:Harriet Beecher Stowe - Tómas frændi.djvu/18

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur verið staðfest

9

„Ég vildi óska, að hann hefði aldrei fæðzt“, sagði Georg beisklega. „Ég vildi að ég hefði aldrei fæðzt sjálfur.“

Elísa varð hrædd og hissa, settist og lagði höfuðið að brjósti manns síns, og fór að gráta.

„Svona nú, Elísa; það var ljótt af mér að hræða þig svona, veslingur“, sagði hann blíðlega, „það var ljótt. Ó, ég vildi, að þú hefðir aldrei séð mig, þá hefðirðu getað verið gæfusöm.“

„Georg, Georg, því geturðu sagt þetta? hvaða ósköp hafa nú komið fyrir, eða vofa yfir? Við höfum vissulega verið gæfusöm, þangað til nú upp á síðkastið.“

„Já, Elísa; en nú er það allt eymd, eymd, eymd! Líf mitt er beiskt sem malurt, lífið sjálft, er að merjast úr mér. Ég er vesall, ógæfusamur, yfirgefinn vinnuþræll. Til hvers er að reyna að gjöra eitthvað, reyna að vita eitthvað, reyna að vera eitthvað? Til hvers er að lifa? Ég vildi, ég væri dauður!“

„Ó, góði Georg, þetta er sannarlega ljótt! Ég veit, að þú hefur harðan húsbónda; en húsbóndi þinn er hann þrátt fyrir allt, það veiztu.“

„Húsbóndi minn! og hver gjörði hann að herra yfir mér? Hvaða rétt hefur hann yfir mér? Ég er maður rétt eins og hann. Hann segir, að hann skuli lækka seglin mín, og auðmýkja mig, og af ásettu ráði fær hann mér erfiðustu og auðvirðilegustu og óþrifalegustu verkin til að vinna.“

„Ó, Georg — Georg — þú skelfir mig! Aldrei hef ég heyrt þig tala neitt þessu líkt fyr; ég er brædd um, að þú