Blaðsíða:Harriet Beecher Stowe - Tómas frændi.djvu/59

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Þessi síða hefur verið staðfest

XII. Tómas frændi er fluttur burt.

Það var dapurt og drungalegt í kofanum hans Tómasar frænda árla morguns í Febrúarmánuði. Börnin sváfu öll í óbrotnu rúmunum sínum.

Tómas stóð á fætur, gekk að rúmum þeirra og horfði á þau.

„Það er í síðasta sinn,“ sagði hann,

Konan hans, Klóa frænka, svaraði ekki. Hún hélt áfram verki sínu, að slétta grófu skyrtuna, og þegar hún var búin setti hún járnið þunglamalega frá sér, settist niður við borðið, tók höndum fyrir andlit sér og grét.

„Mundu það, að ég er á guðs valdi,“ sagði Tómas. „Ekkert getur farið öðruvísi en hann vill. Og eitt er það, sem mér ber að þakka guði, og það er að ég var seldur en ekki þú eða börnin. Þið eruð óhult hér; það sem fyrir kann að koma mætir einungis mér, og ég veit að drottinn hjálpar mér.“

Ó, þú hugumprúða, drenglundaða hjarta, sem dylur eigin sorgir til að hughreysta þína ástkæru! Tómas talaði í hásum róm, og það var eins og eitthvað tæki fyrir kverkar honum, en hann talaði ókvíðinn og örugglega.

Í þessu bili kom frú Shelby inn. Hún var fölleit og kvíðafull á svip.

50