Blaðsíða:Harriet Beecher Stowe - Tómas frændi.djvu/80

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur verið staðfest

71

lokka sína og sagði glaðleg: „Komdu frænka og klipptu kindina“.

„Um hvað ert þú að tala?“ sagði St. Clare, sem kom að í þessu bili með aldini, er hann ætlaði henni.

„Pabbi, eg bað frænku að klippa dálítið af hárinu mínu, það er of mikið og eg ætla að gefa það“.

Ophelía kom með skærin.

„Gjörðu það gætilega,“ sagði St. Clare, „klipptu par sem minnst ber á. Eg er stoltur af hárlokkunum hennar Evu“.

„Ó, pabbi minn,“ sagði Eva hryggðarleg.

„Já, eg vil hafa þá fallega, þegar við förum að finna hann frænda okkar,“ sagði St. Clare í glaðlegum róm.

„Eg fer þangað aldrei, pabbi. Ó, trúðu mér! Sérðu það ekki pabbi, að eg er alltaf að verða meira og meira veik?“

„Því villtu að eg trúi því, sem er svo voðalegt, Eva?“ sagði faðir hennar.

„Vegna þess að það er satt pabbi, og ef þú trúir því nú, ferðu máske að hugsa um það á sama hátt og eg“.

St Clare sagði ekkert; hann stóð þegjandi og horfði með hryggð á löngu, björtu lokkana, sem voru klipptir af höfði hennar hver af öðrum og lagðir í kjöltu hennar. Hún tók þá upp, skoðaði þá og vafði þeim um mögru fingurna, og leit við og við áhyggjufull til föður síns. Hún gjörði honum bendingu að koma; hann kom og settist á bekkinn hjá henni.

„Pabbi, þróttur minn þverrar með hverjum degi. Mig langar að sjá allt fólkið okkar saman komið. Sendu eptir því pabbi. Það er dálítið sem eg verð að segja því,“ sagði Eva.

Ophelía sendi eptir öllu heimilisfólkinu, og brátt var það allt saman komið í herberginu.