Blaðsíða:Norsk avfintyri b1.pdf/103

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur verið prófarkalesin

97

Töfrapípan

Það var einu sinni bóndi, sem var orðinn svo skuldugur, að jörðin var seld fyrir honum upp í skuldir. En maður þessi átti þrjá sonu, hjetu þeir Pjetur, Páll og Jón. Þeir hjengu heima og vildu ekkert gera, því þeim fanst engin vinna nógu góð handa sjer.

Loksins heyrði Pjetur, að kónginn vantaði mann til þess að gæta hjeranna sinna, en af þeim átti hann mesta sæg. Sagði þá Pjetur við pabba sinn, að þetta vildi hann gera, því hann vildi helst ekki vinna hjá neinum lægra settum en konungi. Faðir hans hjelt nú, að einhver vinna myndi kannske vera betri fyrir hann en þessi, því sá sem átti að gæta hjeranna, varð að vera ljettur á sjer og árvakur, því þegar hjeraranir tóku til að hlaupa og kom stygð að þeim, þá var annað verk að gæta þeirra, en að rangla um eins og Pjetur hafði lengst af gert.

En Pjetur sagðist nú ekki setja það fyrir sig, hann skyldi komast í þessa atvinnu, svo tók hann malpoka sinn og labbaði af stað, og þegar hann hafði gengið nokkuð langt, kom hann að gamalli kerlingu, sem hafði fest nefið á sjer í viðarbol, og reyndi með öllu móti að losa það. Pjetur fór að skellihlæja, þegar hann sá þessa sjón.

„Stattu ekki þarna og flissaðu“, sagði kerlingin, „en komdu heldur og hjálpaðu gömlum vesalingi. Jeg ætlaði að kljúfa svolítið af viði, en festi þá nefið á mjer hjer og hefi nú ekki smakkað matarbita í hundrað ár“.

En Pjetur hló enn meir, honum fanst þetta bara gaman, og sagði, að fyrst hún hefði verið þarna í hundrað ár, þá gæti hún sjálfsagt verið þar í önnur hundrað.