Blaðsíða:Norsk avfintyri b1.pdf/104

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Þessi síða hefur verið villulesin

98

Þegar Pjetur kom til kóngshallar, var hann strax tekinn fyrir smala. Það var ekki margt að því að vinna þar, gott fæði og góð laun fjekk maður, og hver vissi nema hann næði í kóngsdóttur í tilbót, en ef það vantaði einn einasta af hjerunum, skyldu verða skornar þrjá skinnlengjur úr bakinu á honum, og honum varpað í ormagarðinn. Meðan Pjetur var með hjerana á leiðinni í hagann og í heimahögum, hjeldu þeir sig allir í hóp, en þegar leið á daginn, og þeir komu út í skóginn, tóku þeir að rása um alt, yfir ása og hæðir. Pjetur hljóp sprengmóður á eftir þeim, og að lokum sá hann ekki nema einn einasta hjera, og svo hvarf hann líka, en þá varð Pjetur að leggjast niður, til þess að kasta mæðinni.

Þegar á daginn leið, lagði hann af stað heimleiðis, og var altaf að gá, hvort ekki kæmu hjerarnir, en ónei, ekki sást einn einasti, og þegar hann kom heim að höllinni, stóð kóngur tilbúinn með hnífinn sinn og skar þrjár skinnlengjur úr baki hans, stráði pipar og salti í og ljet kasta Pjetri í ormagarðinn.

Er nokkuð var umliðið, vildi Páll fara og gæta hjeranna kóngsins. Karl faðir hans sagði það sama við hann, og jafnvel meira en hann hafði sagt við Pjetur, en hann vildi endilega fara, það var skelfingar óðagot á honum, og alt fór líka á sömu leið með hann og Pjetur bróður hans. Hann losaði ekki kerlinguna, misti alla hjerana, og var kastað í ormagarðinn, hvernig sem hann hljóp og hamaðist, ekkert dugði.

Þá var það nú hann Jón, yngsti bróðirinn, sem endilega vildi fara og reyna, hvort hann gæti ekki gætt hjeranna betur en bræður hans, og þetta sagði hann föður sínum: „Mjer finst það alveg ágæt vinna að gæta þessara hjera, maður getur týnt ber og sleikt sólskinið milli þess sem maður lítur eftir greyjunum“.

Faðir hans hjelt að kannske væri einhver vinna, sem hæfði Jóni betur, en að gæta hjeranna, ekki hefði farið svo vel fyrir bræðrum hans tveim, „enda skaltu ekki