Blaðsíða:Norsk avfintyri b1.pdf/112

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur verið prófarkalesin

106

Sagan af Vindskegg bónda

Einu sinni voru hjón, sem áttu einn son, og hann hjet Hans. Móður hans fanst að hann ætti að fara í vinnumensku og vinna fyrir sjer, og sagði við mann sinn, að hann ætti að ráða hann einhversstaðar. „Og hann verður að læra svo mikið, að hann verði meistari allra meistara“, sagði hún, og svo ljet hún nesti og neftóbak í malinn handa þeim.

Jú, þeir hittu marga, sem gátu kennt, en allir sögðust þeir geta gert strák jafnfiman og þeir voru sjálfir, en ekki væri hægt að gera hann fremri. Þegar bóndi kom heim til konu sinnar með þessar fregnir, sagði hún: „Jæja mjer er nú sama, hvernig þú ferð að, en hann verður að verða meistari allra meistara“. Svo lögðu þeir af stað aftur, eftir að hafa fengið mat og tóbak í malinn bóndans.

Þegar þeir höfðu farið drjúga leið, komu þeir á ísi lagt vatn, þar mættu þeir manni, sem kom akandi í sleða, sem brúnn hestur var fyrir. „Hvað eruð þið að fara“, sagði hann.

„Jeg þarf að koma syni mínum til einhvers, sem getur kent honum nógu mikið, því að kerlingin mín er af svo fínum ættum komin, að hún vill gera hann að meistara allra meistara“, sagði maðurinn.

„Það hittist ekki illa á“, sagði maðurinn, sem sat í sleðanum, „því að þetta get jeg gert og jeg er meira að segja að leita að slíkum lærisveini. Komdu upp í sleðann, drengur minn“, sagði hann við strák. Og svo óku þeir bara beint upp í loftið.