Blaðsíða:Norsk avfintyri b1.pdf/114

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur verið prófarkalesin

108

fór hann. Þar stóð lítill kofi undir klettum nokkrum, og fyrir utan hann stóð kerling og dró vatnsfötu upp úr brunni með nefinu, svo langt var það og sterkt.

„Góða kvöldið, móðir góð“, sagði maðurinn. „Gott kvöld“, sagði kerlingin, „enginn hefir kallað mig móður í hundrað ár“, sagði hún, — „Fæ jeg að gista hjer í nótt?“ spurði maðurinn. „Nei“, sagði kerling. En þá tók maðurinn upp neftóbak og gaf kerlingunni. Þá varð hún svo glöð, að hún fór að dansa, og lofaði manninum að vera um nóttina. Eins og af tilviljun spurði hann eftir Vindskegg bónda. Hún sagðist ekki vita neitt um hann, en hún rjeði yfir öllum ferfættum dýrum, og það gat verið að eitthvert þeirra vissi um hann. Svo bljes hún í pípu, og þá komu þau öll, en ekkert þeirra vissi neitt um Vindskegg bónda. — „Jæja, við erum nú þrjár systur“, sagði kerling, „kanske hinar viti hvar hann er. Jeg skal lána þjer hest, þá kemstu þangað annað kvöld, en það eru 300 mílur þangað sem hún á heima, sú sem nær býr“.

Maðurinn lagði svo af stað um morguninn, og hann var kominn á áfangastaðinn um kvöldið. Þegar hann kom inn í kofann, stóð kerlingin þar og skaraði í eldinn með nefinu.

„Gott kvöld móðir góð“, sagði maðurinn.

„Sæll vert þú“, sagði kerlingin.

„Nú hefi jeg ekki verið kölluð móðir í hundrað ár“, sagði hún.

„Get jeg fengið að gista hjer í nótt?“ spurði maðurinn.

„Nei“, sagði kerling. En þá tók maðurinn upp neftóbak og gaf henni á handarbakið. Þá varð hún svo glöð, að hún brá á leik, og sagði að manninum skyldi heimil gisting um nóttina. Þegar þau voru sest að snæðingi, spurði maðurinn um Vindskegg bónda. Nei, kerling vissi ekki neitt um hann, en hún rjeði yfir öllum fiskum,