Blaðsíða:Norsk avfintyri b1.pdf/125

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur verið prófarkalesin

119

„En nú langar mig til að biðja þig að lofa mjer að fara og reyna að leita að þeim. Jeg skal finna þá“, sagði Randver.

„Nei, það færðu ekki“, sagði faðir hans, „þú kemur heldur ekki aftur“.

En Randver vildi endilega fara og hann bað og bað, þangað til faðir hans ljet þetta eftir honum. En nú átti konungurinn ekki annað eftir af reiðskjótum, en eina aflóga bykkju handa honum, því bræður hans og föruneyti þeirra hafði fengið alla góðhesta kóngsins og meira til, en um það kærði Randver sig kollóttan, hann lagði af stað á gamla klárnum. „Vertu blessaður pabbi minn“, kallaði hann. „Jeg skal koma aftur og hafa þá bræður mína með mjer!“

Þegar hann hafði riðið nokkurn spöl, sá hann hrafn, sem lá á veginum og baðaði vængjunum, en gat ekki flogið, svo svangur var hann.

„Æ, góði vinur, gefðu mjer svolítinn matarbita, þá skal jeg hjálpa þjer, þegar þú þarft þess mest með“, sagði hrafninn.

„Jeg hefi nú ekki mikið af mat, og held varla að þú munir geta hjálpað mjer mikið heldur“, sagði kóngssonur, „en dálítið má jeg víst til með að gefa þjer, því mjer sýnist þú þurfa þess með“, og svo gaf hann hrafninum dálítið af nestinu, sem hann hafði haft með sjer að heiman.

Þegar Randver svo hafði farið nokkuð enn, kom hann að læk, það lá stór lax hjá læknum, hann hafði stokkið upp á þurt land, og komst nú ekki út aftur.

„Ó, góði vinur!, hjálpaðu mjer út í lækinn aftur“, sagði laxinn við Randver kóngsson, „þá skal jeg hjálpa þjer þegar þú þarft þess mest með“.

„Varla geturðu hjálpað mjer mikið“, sagði konungssonur, „en mjer finst synd að láta þig liggja þarna uppi á þurru“, og svo setti hann laxinn út í lækinn aftur.