Blaðsíða:Norsk avfintyri b1.pdf/127

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Þessi síða hefur verið villulesin

121

herberginu sat konungsdóttir, eins og úlfurinn hafði sagt, og svo fallega stúlku hafði Randver aldrei sjeð.

„Ó, guð hjálpi þjer. Hvernig í ósköpunum ertu hingað kominn?“ sagði kóngsdóttir, þegar hún sá hann. „Þjer er bani búinn, því risanum, er hjer býr, fær ekkert grandað, hann er hjartalaus, og geymir hjarta sitt einhvers staðar þar sem enginn getur fundið það“.

„Já, en úr því jeg er kominn hingað, þá vil jeg reyna við hann“, sagði Randver. „Og bræður mína, sem eru steinar hjer fyrir utan, vil jeg líka frelsa, og líka vil jeg reyna að bjarga þjer“.

„Fyrst þú vilt endilega vera hjer, þá verðum við að finna upp á einhverjum ráðum“, sagði kóngsdóttir. — „Skríddu nú undir rúmið þarna, og hlustaðu vel á um hvað jeg tala við risann, þegar hann kemur heim“.

Randver skreið svo undir rúmið, og ekki var hann fyr kominn þangað, en risinn kom þrammandi inn.

„Hjer er ljóti mannaþefurinn“, sagði hann.

„Já, það var hrafn eitthvað að flækjast hjer með mannsbein“, svaraði kóngsdóttir. „Jeg kastaði því nú út, en það er víst svolítil lykt hjer enn“.

Jú, það ljet risinn sjer vel líka.

Svo kom kvöld, og þau fóru að hátta, og þegar risinn var háttaður, sagði kóngsdóttir: „Mig langar til að spyrja þig að dálitlu, — bara ef jeg þyrði það“.

„Hvað er nú það?“ spurði risinn.

„Mig langar svo til að vita, hvar þú geymir hjarta þitt, fyrst þú hefir það ekki í brjóstinu“, sagði kóngsdóttir.

„O, þig varðar nú lítið um það“, sagði risinn. „En annars liggur það undir dyrahellunni“.

Einmitt, ekki verður þá mikill vandi að finna það, hugsaði Randver konungsson undir rúminu.

Morguninn eftir fór risinn á fætur fyrir allar aldir og gekk til skógar, og ekki var hann fyr farinn, en Randver og kóngsdóttir fóru að leita undir dyrahellunni að hjartanu hans, en hvernig sem þau leituðu, fundu þau ekkert.