Blaðsíða:Norsk avfintyri b1.pdf/14

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Þessi síða hefur verið staðfest

8

best hún gat og var ferðbúin. Það tók nú heldur ekki langan tíma, því lítið var það, sem hún hafði meðferðis.

Næsta föstudagskvöld kom ísbjörninn og ætlaði að sækja hana. Hún settist á bak honum með pokasnigilinn sinn og svo var haldið af stað.

Þegar þau voru komin nokkuð frá kotinu, sagði ísbjörninn: „Ertu ekki hrædd?“

Nei, það var hún ekki.

„Jæja, haltu þjer bara fast í feldinn minn, þá er heldur engin hætta á ferðum“, sagði björninn.

Nú fóru þau langar leiðir, uns þau komu að háu fjalli. Þar barði björninn á, og svo opnaðist hlið og þau komu inn í höll með mörgum uppljómuðum sölum og smærri herbergjum, og allt skein þar af gulli og silfri, og í einum stærsta salnum stóð búið borð, og það var svo skrautlegt, að því trúir enginn. Síðan fjekk björninn stúlkunni silfurbjöllu, og henni átti hún að hringja, ef hún þarfnaðist einhvers, þá fengi hún hvað sem hana vanhagaði um. —

Þegar hún hafði matast og tók að líða á kvöldið, þá fór hana að syfja, því hún var þreytt eftir ferðina, og hana langaði til að fara að sofa. Þá hringdi hún bjöllunni, og ekki hafði hún fyrr gert það, en hún var allt í einu komin inn í skrautbúið herbergi, þar sem stóð rúm með silkilökum og dúnsængum, en sængurtjöldin voru öll gullsaumuð. En þegar hún hafði slökt ljósið, varð hún þess vör, að manneskja kom og háttaði hjá henni, — það var ísbjörninn, hann kastaði bjarnarhamnum á næturnar, en hún sá hann aldrei, því hann kom alltaf eftir að hún var búin að slökkva, og var farinn á morgnana, áður en hún var vöknuð.

Þegar stundir liðu fram, fór stúlkan að verða þunglynd og hljóð, því hún var alein allan liðlangan daginn, og hana langaði svo mikið heim til foreldra sinna og systkina, og þessvegna var hún svo sorgmædd. — Ísbjörninn komst að þessu og sagði að hún gæti fengið að fara, en hún yrði að lofa sjer því, að tala aldrei einslega við móð-