Blaðsíða:Norsk avfintyri b1.pdf/18

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Þessi síða hefur verið staðfest

12

af stað, og þegar hún hafði gengið marga, marga daga, kom hún að háu standbergi.

Undir berginu sat gömul kerling og ljek sjer að gullepli. Hana spurði stúlkan, hvort hún vissi, hvernig komast ætti til kóngsonarins, sem væri hjá stjúpu sinni í höll, sem væri fyrir austan sól og vestan mána, og sem ætti að fá kóngsdóttur fyrir konu, sem hefði þriggja álna langt nef.

„Hvaðan þekkir þú hann?“ spurði kerling. „Kannske þú hafir ætlað að giftast honum?“

Ójú, svo var nú það.

„Nú, já, það ert þú“, sagði kerlingin. „Ja, jeg veit ekkert meira um hann, svei mjer þá, en það, að hann býr í höllinni fyrir austan sól og vestan mána, og þangað kemstu seint eða aldrei, en hestinn minn skaltu fá lánaðan, og á honum geturðu riðið til grannkonu minnar, kannske hún geti sagt þjer eitthvað um þetta, og þegar þú ert komin til hennar, þá slærðu bara hestinn undir vinstra eyrað og biður hann að fara heim aftur. Og gulleplið geturðu tekið með þjer“.

Stúlkan beislaði hestinn og settist á bak og reið lengi, lengi, þangað til hún kom að bergi nokkru, en undir því sat gömul kerling og var að hespa á gullhesputrje. Hana spurði stúlkan, hvort hún vissi um leiðina til hallarinnar sem er fyrir austan sól og vestan mána. Hún sagði eins og fyrri kerlingin, að hún vissi ekki neitt um það, en hjeldi að þangað kæmist hún seint eða aldrei, „en hestinn minn skaltu fá lánaðan til hennar grannkonu minnar, kanske hún viti það, og þegar þú ert komin þangað, þá slærðu hann bara undir hægra eyrað, og segir honum að fara heim“, og svo gaf kerlingin henni hesputrjeð, og sagði að það gæti vel komið henni í góðar þarfir.

Stúlkan steig á bak hesti kerlingar og reið langar leiðir, og loksins kom hún að stóru bergi, þar sat gömul kerling og spann á gullrokk. Hana spurði stúlkan nú um, hvort hún vissi hvaða leið ætti að fara til kóngssonarins,