Blaðsíða:Norsk avfintyri b1.pdf/21

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur verið staðfest

15

Jú, hún vildi og skyldi komast þangað, ef það væri á nokkurn hátt mögulegt, og hrædd var hún ekki, hvernig sem alt gengi.

„Jæja þá, þá verðurðu að gista hjá mjer í nótt“, sagði Norðanvindur, „því daginn verðum við að hafa fyrir okkur og vel það, ef við eigum að komast til hallarinnar fyrir austan sól og vestan mána“.

Snemma um morguninn vakti svo Norðanvindur stúlkuna, og bljes sig allan út og gerði sig ógurlegan ásýndum, svo stóran og sterkan, að enginn hafði sjeð annað eins, og svo flugu þau af stað hátt upp í loftið, eins og þau væru að fara á heimsenda. Í sveitunum fyrir neðan var slíkt ofsarok, að skógar og hús, flugu langar leiðir, og þegar þau komu út yfir hafið, fór sjórinn í rót, og skip mistu rá og reiða í ofsanum. Þannig hjeldu þau áfram svo langt, svo langt, að enginn trúir því, og altaf svifu þau yfir hafi, og Norðanvindurinn varð stöðugt þreyttari og þreyttari, og það svo, að hann gat varla blásið lengur, og að lokum flaug hann svo lágt, að löðrið úr öldunum vætti fætur stúlkunnar.

„Ertu hrædd?“ spurði Norðanvindur.

„Nei“, sagði stúlkan. „Það er jeg ekki“.

En þau voru ekki langt frá landi, og enn hafði Norðanvindur þrótt til þess að kasta stúlkunni upp á ströndina undir gluggunum á höllinni, sem stóð fyrir austan sól og vestan mána, en þá var hann líka orðinn svo lúinn, að hann varð að hvíla sig í marga daga, áður en hann komst heim aftur.

Næsta morgun fór stúlkan að leika sjer að gulleplinu fyrir utan hallargluggana, og það fyrsta sem hún sá, var bryðjan með þriggja álna langa nefið, sú, sem átti að giftast kóngssyninum.

„Hvað viltu fá fyrir þetta gullepli“, spurði sú með nefið, og glápti út um einn gluggann.