Blaðsíða:Norsk avfintyri b1.pdf/26

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Þessi síða hefur verið villulesin


Fylgdarsveinninn

EINU SINNI var bóndasonur. Hann dreymdi að hann ætti að eignast kóngsdóttur langt úti í löndum, og að hún væri hvít sem mjöll og rjóð sem blóð, og svo rík, að auðæfi hennar gengju aldrei til þurðar. Þegar hann vaknaði, sýndist honum hún standa ljóslifandi fyrir sjer og honum fanst hún svo fín og yndisleg, að hann gæti ekki lifað án hennar. Svo seldi hann alt sem hann átti, og fór út í heiminn, til þess að leita hennar. Hann fór langa vegu, og um veturinn kom hann í land, þar sem allir vegir voru þráðbeinir, svo að hvergi var bugða á þeim. Og þegar hann hafði haldið áfram eftir einum beina veginum í þrjá mánuði, kom hann í þorp, og þar lá stórt ísstykki fyrir utan kirkjudyrnar, en inni í ísnum var mannslík, og alt kirkjufólkið fussaði og sveiaði, þegar það gekk fram hjá. Þetta þótti piltinum skrítið, og þegar presturinn kom út úr kirkjunni, spurði hann þann góða mann, hvernig á þessu stæði. „Þetta er glæpamaður“, sagði presturinn. „Hann var líflátinn fyrir óguðleg verk, og settur í ís til háðungar“.

„Hvað gerði hann þá af sjer?", spurði pilturinn.

„Hann var vínbruggari", sagði presturinn, „og hann blandaði vínið með vatni“.

Það fanst piltinum ekkert sjerstaklega mikið illvirki, „og úr því hann hafði nú goldið fyrir það með lífinu, þá gætuð þið jarðað hann í vígðri mold, og lofað honum að hvíla í friði.“ En presturinn sagði, að það væri ekki hægt með neinu móti, fyrst þyrfti nú menn til þess að brjóta utan af honum ísinn, svo þyrfti peninga til þess að kaupa