Blaðsíða:Norsk avfintyri b1.pdf/29

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur verið prófarkalesin

23

tröllkerlingunni, að hann skyldi sleppa henni af stólnum. Hún sagði, að hann mætti fá alt sem hún ætti, en menið vildi hún ekki missa, því að það væri Þriggjasystramenið hennar. En þegar hún heyrði að hún ætti að sitja kyr til dómsdags, ef hann fengi ekki menið, þá sagði hún að hann yrði víst að fá það, ef hann slepti sjer. Og fylgdarsveinninn tók menið, en lét tröllkonuna sitja fasta eftir sem áður.

Svo gengu þeir marga daga yfir heiðar og gegnum skóga, þangað til þeir komu aftur að standbergi. Þar fór eins og í fyrri skiftin, þeir börðu á bergið, og það opnaðist; út kom tröllkerling með stól og bauð þeim sæti vegna þess að þeir væru þreyttir. En fylgdarsveinninn sagði: „Sittu sjálf“, og svo settist hún. Þeir höfðu ekki farið víða um í berginu, áður en þeir sáu gamlan hatt, sem hjekk á snaga bak við hurð. Hann vildi fylgdarsveinninn fá, en kerlingin vildi ekki missa hann, því að hann var þrísystrahatturinn hennar, og ef hún gæfi hann eða ljeti af hendi, þá yrði hún æfinlega óhamingjusöm. En þegar hún heyrði, að hún ætti að sitja til dómsdags, ef hann fengi ekki hattinn, sagði hún að hann mætti fá hann, ef hann slepti henni lausri. En þegar fylgdarsveinninn hafði tekið hattinn, ljet hann hana sitja fasta eins og systur hennar.

Eftir langa ferð komu pilturinn og fylgdarsveinninn að sundi einu. Þá tók fylgdarsveinninn gulllykilinn og kastaði honum yfirum sundið svo fast, að hann hrökk til baka aftur, og þegar hann hafði gert þetta nokkrum sinnum, var komin brú á sundið. Þessi brú var úr þræði gerð, og þegar þeir voru komnir yfir, sagði sveinninn við piltinn, að hann skyldi vinda upp þráðinn eins fljótt og hann mögulega gæti, því annars kæmu tröllkerlingarnar þrjár og rifu þá sundur. Piltur vatt upp þráðinn eins fljótt og honum var mögulegt, og þegar ekki var eftir nema endinn, komu tröllkerlingarnar þjótandi út í vatnið en náðu ekki í endann og druknuðu í sundinu. Þegar