Blaðsíða:Norsk avfintyri b1.pdf/31

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Þessi síða hefur verið villulesin

25

við“, sagði hún og hló, „en ef þú getur það ekki, þá missir þú lífið, slík eru lögin, og þá verður þú settur á hjól en höfuðið á stöng, eins og biðlarnir, sem þú sjerð höfuðkúpurnar af þarna fyrir utan gluggana“. — Þar stóðu hauskúpur af mönnum á stöngum alt í kringum kóngshöllina, eins og hrafnar sitja á staurum á haustin.

Þetta var nú ekki mikill vandi, hugsaði piltur. — En kóngsdóttir var svo fjörug og kát, og ljek sjer svo mikið við piltinn, að hann gleymdi skærunum og sjálfum sjer, og hún náði þeim frá honum, án þess að hann yrði var við það. — Þegar hann kom upp í herbergið sitt um kvöldið, og sagði fylgdarsveininum hvernig alt hefði gengið, og um skærin, sem hún bað hann að geyma, þá sagði fylgdarsveinninn: „Þú hefir líklega skærin enn?“ Pilturinn fór í alla vasa sína, en þar voru engin skæri, og honum varð ekki um sel, þegar hann komst að því, að þau voru farin. „O, vertu rólegur, ætli jeg reyni ekki að ná í þau fyrir þig“, sagði fylgdarsveinninn, og fór niður í hesthúsið, þar stóð stóreflis geithafur, sem kóngsdóttirin átti, og hann hafði þá náttúru, að hann gat flogið mörgum sinnum hraðar en hann gekk. Svo tók sveinninn þrísystrasverðið, og sló því milli hornanna á hafrinum og sagði: „Hvenær ríður kóngsdóttir til kærastans í nótt?“ Hafurinn kumraði og þorði ekkert að segja, en þá fjekk hann annað högg, og sagði að kóngsdóttir kæmi klukkan ellefu. Fylgdarsveinninn setti á sig Þrísystrahattinn, og varð þá ósýnilegur og beið svo þangað til kóngsdóttir kom. Og þegar hún kom, smurði hún hafurinn allan með einhverjum smyrslum, er hún hafði í stóru horni, og sagði: „Fljúgðu upp, fljúgðu upp, yfir fjöll yfir dal, yfir vatn, yfir sal, til kærastans sem bíður mín í berginu í nótt!“ Ekki var hún búin að sleppa orðinu, fyr en hafurinn fór af stað, og um leið settist fylgdarsveinninn á bak fyrir aftan hana, svo þaut hafurinn eins og vindur gegnum loftið, þau voru ekki