Blaðsíða:Norsk avfintyri b1.pdf/35

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur verið prófarkalesin

29

„Hjer er það“, sagði hún, „því jeg náði því af honum aftur án þess að hann yrði þess var, en hvað eigum við nú að gera við það úr því hann kann svona margt fyrir sjer?“

Ja, þursinn var nú ekki alveg viss um, hvað ætti að gera, en þegar þau höfðu hugsað sig um, tóku þau það til bragðs, að gera mikið bál og brenna gullnistið þar á, þá væru þau viss um að hann gæti ekki fundið það. En um leið og hún kastaði nistinu á bálið, stóð fylgdarsveinninn viðbúinn og greip það á lofti, og enginn sá það, því hann var með Þrísystrahattinn. Þegar kóngsdóttir hafði verið hjá þursanum um stund, og tók að líða að morgni, fór hún heim aftur, fylgdarsveinninn settist fyrir aftan hana á hafrinum, og ferðin gekk bæði fljótt og vel. Áður en pilturinn fór til miðdegisverðar, fjekk fylgdarsveinninn honum nistið. Kóngsdóttirin var enn snúðugri og teprulegri en daginn áður, og þegar búið var að borða, herpti hún saman varirnar og sagði:

„Þú getur líklega ekki gert svo vel að láta mig fá nistið mitt aftur?“

„Jú,“ sagði piltur. „Það skaltu fá, hjer er það“ sagði hann og kastaði því á borðið, svo borðið skalf og nötraði og konungurinn hoppaði hátt upp í loftið.

Kóngsdóttir varð föl eins og nár, en hún gerði sig fljótt blíða á manninn aftur, og sagði að pilturinn væri duglegur, og nú væri aðeins ein lítil þraut eftir. — „Fyrst þú ert svona duglegur, þá geturðu líklega fengið handa mjer það sem jeg hugsa um, þangað til um þetta leyti á morgun. Getirðu það, þá skaltu fá mig fyrir konu“, sagði hún.

Piltur varð eins og hann hefði verið dæmdur til dauða, því honum fanst ómögulegt að vita um hvað hún væri að hugsa, og enn erfiðara að ná í það handa henni, og þegar hann kom upp í herbergið sitt, var hann því nær óhuggandi. En fylgdarsveinninn sagðist skyldi