31
bæði hann og kóngsdóttir hjeldu að piltur myndi verða líflátinn, og hrafnar slíta bein hans, áður en hann næði höfði risans.
Þegar leið að morgni, ætlaði kóngsdóttir heim aftur, en hún var hrædd, sagði hún, því henni fanst einhver vera á eftir sjer, og þorði ekki að fara ein heim. Jú, risinn ætlaði að fylgja henni, og leiddi fram hafurinn sinn, því hann átti eins hafur og kóngsdóttir, og hann smurði hann allan líka. Þegar jötuninn var stiginn á bak, settist fylgdarsveinninn fyrir aftan hann, og svo var riðið í loftinu, en á leiðinni sló fylgdarsveinninn duglega bæði tröllið og hafurinn, gaf þeim högg eftir högg, og þau voru vel úti látin. Sá nú þursinn, að ekki var alt með feldu, svo hann fylgdi kóngsdóttur alveg heim að höll og beið svo nokkuð fyrir utan, til þess að sjá að hún kæmist heilu og höldnu heim. En um leið og hún lokaði dyrunum, hjó fylgdarsveinninn hausinn af risanum og hljóp með hann upp til piltsins. „Hjer er það, sem kóngsdóttir hugsaði um“, sagði hún.
Já, ekki var það nú amalegt, og þegar pilturinn fór niður að borða og á meðan á því stóð, var kóngsdóttir blíð eins og ánægður köttur. „Þú hefir kannske það sem jeg var að hugsa um“, spurði hún.
„Víst hefi jeg það“, sagði piltur, og hann dró fram höfuðið og sló því í borðið, svo borðið fór á annan endann. Kóngsdóttir varð hvít eins og lín, en hún gat ekki neitað því, að þetta væri það sem hún hafði hugsað um og nú varð hún að giftast honum, eins og hún hafði lofað. Síðan var drukkið brúðkaup, og varð mikil gleði um alt ríkið. En fylgdarsveinninn kom að máli við brúðgumann og sagði við hann, að hann yrði að gæta þess vel að láta sjer ekki koma dúr á auga brúðkaupsnóttina, hann skyldi bara látast sofa, en sofnaði hann, lægi líf hans við, ef hann hefði ekki fyrst losað konu sína við tröllhaminn, sem hún hefði, og hann átti piltur að hýða