Blaðsíða:Norsk avfintyri b1.pdf/38

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Þessi síða hefur verið villulesin

32

af kóngsdóttur með níu birkigreinum, bundnum í vönd, og svo átti hann að þvo hann af henni í þrem bölum af mjólk, fyrst ársgamalli mysu, svo upp úr súrmjólk og svo skola hana úr nýmjólk. Vöndurinn lá undir rúminu, en mjólkurbalarnir stóðu úti í horni, alt var til reiðu. Ja, piltur lofaði, að hann skyldi gera þetta, og fara alveg eins að eins og hinn sagði fyrir.

Þegar þau hjón voru háttuð um kvöldið, ljest piltur sofa. Kóngsdóttir reis þá upp á olnboga og gáði hvort hann svæfi og kitlaði hann á nefinu. Piltur bærði ekki á sjer. Þá tók hún í hárið á honum. En hann ljest sofa jafn fast og áður. Þá tók hún stóran hníf undan koddanum, og ætlaði að leggja til hans með honum, en hann þaut upp, sló hnífinn úr hendinni á henni, og greip í hárið á henni. Síðan hýddi hann hana með vendinum, þangað til ekkert var orðið eftir af honum. Svo dembdi hann henni niður í mysubalann, og þá sá hann fyrst, hvernig hún var, svört um allan skrokkinn, en þegar hann hafði skúrað hana upp úr mysunni og þvegið hana svo úr súrmjólk, var galdrahamurinn farinn af henni og hún orðin eins blíð og falleg og hún hafði fegurst verið áður, og meira en það.

Daginn eftir sagði fylgdarsveinninn, að nú yrðu þau að leggja af stað. Já, piltur var ferðbúinn og kóngsdóttir líka, því heimanmundurinn var löngu borgaður. Um nóttina hafði fylgdarsveinninn flutt alt það gull og silfur, sem tröllkarlinn hafði látið eftir sig í hellinum, til kóngshallar og þegar þau ætluðu að leggja af stað, var alsstaðar svo fult af gulli og gimsteinum, að varla var hægt að þverfóta fyrir því; heimanmundurinn var meira virði en lönd og ríki konungsins, og þau höfðu ekki hugmynd um hvernig þau ættu að komast með þetta alt með sjer. En fylgdarsveinninn var ekki ráðalaus fremur en vant var. Tröllkarlinn hafði átt sex hafra, sem gátu flogið. Á þessa hafra var nú sett svo mikið af gulli og gersemum,