Blaðsíða:Norsk avfintyri b1.pdf/41

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur verið prófarkalesin

35

Umli litli úr gæsaregginu

Einu sinni voru fimm kerlingar, sem voru úti á akri að skera upp korn. Allar voru þær barnlausar, og allar óskuðu þær að eiga barn. Alt í einu sáu þær einkennilega stórt gæsaregg, næstum því eins stórt og mannshöfuð. „Jeg sá það fyrst“, æpti ein þeirra. „Jeg sá það jafnsnemma og þú“, skrækti önnur. „Jeg vil fá eggið, því það var jeg, sem sá það fyrst“, sagði sú þriðja. Svona hjeldu þær áfram og rifust svo mikið um eggið, að þeim lá við áflogum.

En svo komu þær sjer saman um að þær skyldu eiga það saman allar fimm, og að þær skyldu liggja á því, eins og gæsin gerir, og unga því út. Sú fyrsta lá á egginu í heila viku og gerði ekki nokkurn hlut, en hinar urðu að þræla fyrir matnum, bæði handa sjer og henni. Og svo fór ein hinna að skamma hana fyrir þetta.

„Þú komst heldur ekki úr egginu, fyr en þú gatst skríkt“, sagði sú, sem lá á, „en jeg held nú að verði meira úr því, sem er í þéssu eggi, heldur en þjer, því mjer heyrist það umla eitthvað um síld og graut og mjólk. En nú getur þú legið á í viku, og þá getum við hinar þrælað fyrir matnum handa þjer“.

Þegar sú fimta var líka búin að liggja á í viku, heyrði hún vel, að það var umlað í egginu um síld og graut og mjólk, og svo braut hún gat á eggið, en í stað gæsarunga kom út barn og það var svo ljótt, með stórt höfuð og lítinn skrokk, og það fyrsta, sem það umlaði um, þegar það kom í dagsljósið, var um síld og graut og mjólk. Því kölluðu þær barnið Umla litla úr gæsaregginu.