Blaðsíða:Norsk avfintyri b1.pdf/42

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Þessi síða hefur verið villulesin

36

Þótt krakkinn væri ljótur, þótti þeim þó vænt um hann, en það leið ekki á löngu þangað til hann varð svo gráðugur, að hann át upp allan mat, sem þær höfðu. Þegar þær suðu sjer graut, jafnvel heilan pott, sem þær hjeldu að væri nógur handa þeim öllum sex, þá hámaði Umli það alt í sig. Svo vildu þær ekki hafa hann lengur. „Jeg hefi bara aldrei fengið nóg að borða, síðan þessi umskiftingur skreið úr egginu“, sagði ein þeirra, og þegar Umli heyrði að þær voru þessu allar samþykkar, sagði hann að hann gæti svo sem farið, ef þær þyrftu sín ekki með, þá þyrfti hann þeirra heldur ekki, og með það hljóp hann á burtu.

Eftir að hafa gengið lengi, kom hann að bóndabæ, sem stóð á hrjóstrugu svæði, og bað um atvinnu, — jú, þeir þurftu þar vinnumann og sögðu honum að tína grjót af akrinum. Þetta gerði Umli og hann tók bæði stóra stein og smáa og hve stórir sem þeir voru, stakk hann þeim í vasa sinn. Það leið ekki á löngu áður en hann hafði lokið þessu verki, og svo vildi hann fá að vita, hvað hann ætti að gera meira.

„Þú verður að taka alla steinana af akrinum“, sagði bóndinn, „það er ómögulegt að þú sjert búinn“.

En Umli tók þá steinana úr vösum sínum, og kastaði þeim öllum í eina hrúgu, og það varð nú engin smáhrúga. Þegar bóndinn sá, hve stór hún var, varð hann alveg steinhissa á, hve nýi vinnumaðurinn var sterkur, og bauð honum að koma inn og fá að borða. Það fanst Umla þjóðráð og hann át alt, sem búið hafði verið til af mat, bæði handa húsbændum og hjúum, og fjekk samt ekki í sig hálfan.

Já, hann var enginn letingi piltur sá, hvorki að vinna nje að jeta, það stóð alt á botni í honum, hugsaði bóndi. „Svona vinnumaður jetur hvern bónda út á gaddinn“, sagði hann. — „Þú verður að fara eitthvað annað, drengur minn, jeg hefi engin efni á að fæða svona átvagl!“