Blaðsíða:Norsk avfintyri b1.pdf/43

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur verið prófarkalesin

37

En þá fór Umli til kóngsins og fjekk þar strax vinnu, og hjá konungi var nóg bæði um mat og vinnu. Hann átti að vera þar vikadrengur og hjálpa stúlkunum að bera vatn og ýmislegt smávegis.

Svo spurði hann, hvað hann ætti að gera fyrst.

„Það er best að þú höggvir svolítinn við í eldinn“, sögðu þær.

Jú, Umli fór að höggva eldivið og hjó svo, að spænirnir fuku kringum hann, og það leið ekki á löngu áður en hann var búinn að höggva upp allan við, sem til var, jafnvel stóreflis trje, og þegar hann var búinn, kom hann og spurði, hvað hann ætti nú að gera.

„Þú getur haldið áfram að höggva“, sagði ráðsmaðurinn.

„Onei, það get jeg ekki, jeg er búinn með allan viðinn“, sagði Umli.

Eitthvað væri það nú skrítið, hugsaði ráðsmaðurinn, og fór svo að gæta að. Ójú, alt var upphöggvið, og svo skipaði ráðsmaðurinn Umla að fara út í skóg og fella jafnmikið af trjám, eins og viðurinn væri mikill, sem hann hefði höggvið í eldinn.

Umli fór nú út í smiðju og fjekk smiðinn til þess að smíða handa sjer öxi úr átta vættum af járni, svo fór hann út í skóginn og fór að höggva, hann var nú ekki að velja úr trjánum drengurinn sá, hann hjó alt sem fyrir var, bæði í skóginum, sem kóngur átti og í skógi nágrannans, og hann ljet trjen liggja þar sem þau voru komin, svo skógurinn leit út eins og eftir fellibyl. Svo setti hann heldur mikið af viði á sleðann, sem hann var með, og marga hesta fyrir, en þeir hreyfðu ekki sleðann. Þá tók hann í hausana á hestunum og ætlaði að draga þá áfram, en þá fór hvorki betur nje ver en svo, að hausarnir fóru af hestunum. Umli velti þá skrokkunum burtu og dró sleðann sjálfur heim.

Þegar hann kom heim til hallarinnar, stóð kóngur og