Blaðsíða:Norsk avfintyri b1.pdf/47

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur verið prófarkalesin

41

„Nei, ekki aldeilis,“ sagði hún. „Það læt jeg mig ekki með, það er eins víst eins og að gamla furan stendur þarna fyrir utan hliðið.“ Þessi fura fyrir utan hlið vítis var svo stór, að fimtán menn náðu ekki utan um hana, þótt þeir hjeldu saman höndum. En Umli klifraði upp í trjeð og sneri upp á digrustu greinarnar, eins og þær væru smákvistar, og spurði svo ömmu ljóta karlsins hvort hún vildi nú borga landskuldina.

Jú, þá þorði gamla frúin ekki annað, og smalaði saman svo miklu af peningum, að Umli gat rjett borið það í malnum sínum. Svo lagði hann af stað með landskuldina og rjett eftir að hann var farinn, kom fjandinn heim. Þegar hann heyrði að Umli hafði farið úr hans heimkynnum með fullan poka af peningum, skammaði hann ömmu sína fyrst, og elti svo Umla. Og hann náði honum líka, því hann hafði ekkert að bera og var vængjaður að auki, en Umli varð að halda sjer við jörðina með þunga pokann sinn, en þegar kölski fór að nálgast hann, flýtti Umli sjer allt hann orkaði, og hjelt kylfunni fyrir aftan sig, til þess að verjast þeim gamla. Og svona gekk það, Umli hjelt í skaftið óg kölski reyndi að ná í kylfuna, svo komu þeir að djúpum dal, og yfir hann stökk Umli, fjallanna á milli og kölski var svo óður í að ná í hann að hann rauk á eftir, rakst á kylfuna og datt niður í dalinn, og við það meiddi hann sig í fætinum, og gat ekki elt Umla lengur.

„Þarna er landskuldin,“ sagði Umli, þegar hann kom til kongsins, og kastaði til hans peningapokanum, svo brakaði og brast í öllu. Kóngur þakkaði og ljet sem sjer líkaði þetta mjög vel, lofaði honum góðum launum, og heimferðarleyfi, ef hann vildi, en Umli vildi bara vinna meira.

„Hvað á jeg nú að gera?“ spurði hann.

Jú, þegar kóngur var búinn að hugsa sig um, sagði hann að hann yrði að fara til risans, sem hefði stolið dýrmætu sverði, sem kóngur hefði erft eftir afa sinn,