Blaðsíða:Norsk avfintyri b1.pdf/63

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Þessi síða hefur verið villulesin

57

betur. Þegar hann var kominn gegnum vatnsflauminn, sá hann rauðan logann fyrir neðan sig, og varð hræddur og ljet draga sig upp aftur.

Þá fór nú hermaðurinn af stað, og hann hjelt áfram, bæði gegnum vatn og eld, alveg þangað til hann kom til botns. Þar niðri var þreifandi myrkur, svo hann sá ekki handa skil. Ekki þorði hann heldur að sleppa körfunni, en gekk í kring og fálmaði fyrir sjer. Jú, svo kom hann auga á svolitla skímu, langt, langt í burtu, eins og vottaði fyrir dögun, og í þá átt gekk hann. Þegar hann hafði gengið nokkurn spöl, fór að birta í kringum hann, og svo leið ekki á löngu, fyr en gullsól kom upp á himininn, og svo varð bjart og fallegt. Fyrst sá hermaðurinn miklar hjarðir á beit, þar voru feitar og fallegar kýr, og þar eftir kom hann að stórri og mikilli höll. Þar gekk hann gegnum marga sali, án þess að hitta nokkurn mann. — Loksins heyrði hann rokkhljóð, og þegar hann kom þar inn, sem verið var að spinna, þá sat elsta kóngsdóttirin þar og spann kopargarn, og bæði stofan og alt sem í henni var, var úr gljáfægðum kopar.

„Hvað er nú þetta, koma hingað kristnir menn?“, sagði kóngsdóttirin. „Hamingjan hjálpi þjer, hvað viltu hingað?“

„Jeg ætla að frelsa þig úr berginu“, sagði hermaðurinn.

„Farðu góði vinur, farðu! Ef tröllið kemur heim, þá gerir það út af við þig undir eins, — hann er þríhöfðaður, þursinn“.

„Mjer væri alveg sama, þó hann væri fjórhöfðaður“, sagði hermaðurinn. „Fyrst jeg er kominn hingað, þá verð jeg hjer kyr“.

„Jæja, fyrst þú ert svona ákafur, þá verð jeg víst að reyna að hjálpa þjer“, sagði kóngsdóttirin. Svo sagði hún að hermaðurinn skyldi skríða bak við stóra bruggkerið, sem stóð í anddyrinu, en hún skyldi taka á móti tröll-