Blaðsíða:Norsk avfintyri b1.pdf/66

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Þessi síða hefur verið villulesin

60

Og hún var ekki minna glöð, þessi kóngsdóttir, heldur en systir hennar hafði verið, það getur maður nú skilið, en þegar þær voru að dansa og syngja af kæti systurnar, þá varð þeim alt í einu hugsað til yngstu systur sinnar, og svo fóru þær með hermanninn yfir stóran garð og gegnum mörg, mörg herbergi, þangað til hann kom inn í gullsalinn til þriðju kóngsdótturinnar. Hún sat og spann gullþráð á gullrokk, og það gljáði á alt frá lofti til gólfs, og það svo, að manni gat orðið ilt í augunum.

„Hamingjan hjálpi okkurbáðum“, sagði yngsta kóngsdóttirin. „Hvað vilt þú hingað? Blessaður komdu þjer burtu, annars drepur þursinn okkur bæði“.

„Það er eins gott að jeg sje hjerna hjá þjer, eins og þú sjert ein“, sagði hermaðurinn. Kóngsdóttirin grjet og bað hann að fara, en það hafði engin áhrif. Hann vildi vera kyr, og hann skyldi vera kyr. Jæja, þá var ekki um annað að gera fyrir hann, en að reyna, hvort hann gæti notað sverðið tröllkarlsins á borðinu úti í anddyrinu. En það var rjett svo að hann gat hreyft það, — það var miklu stærra og þyngra en hin sverðin. Þessvegna varð hann að ná í hornið, sem hjekk á veggnum, og fá sjer sopa úr því. Hann fjekk sjer þrjá, en samt gat hann ekki meira en rjett tekið sverðið upp. Þegar hann hafði fengið sjer þrjá sopa í viðbót, gat hann ráðið sæmilega við sverðið, og eftir þrjá sopa enn, gat hann sveiflað því eins og fisi. Þá sagði kóngsdóttirin hermanninum það sama og hinar höfðu gert, að þegar risinn væri sofnaður, skyldi hún kalla á hænsnin, og þá skyldi hann flýta sjer að koma og gera út af við hann.

Alt í einu heyrðust dunur og dynkir, eins og höllin ætlaði að hrynja í rúst.

„Svei, svei. Hjer er mannaþefur inni“, sagði tröllið, og lyktaði með öllum níu nefunum sínum.

„Já, þú hefðir bara átt að sjá til hrafnsins, sem flaug