Blaðsíða:Norsk avfintyri b1.pdf/69

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur verið prófarkalesin

63

hvað yrði hann samt að gera, hugsaði hann með sjer, og svo gekk hann um tröllahallirnar, sal úr sal, í marga daga, og opnaði alla skápa og skúffur, sem hann fann. Líka leit hann upp á allar hillur, og fann þar margt fallegt. Eftir að hafa verið að þessu lengi, rakst hann á borðskúffu, dró hana út, og sá að í henni lá gulllykill. Svo reyndi hann þenna lykil í allar þær læsingar, sem hann fann, en hann gekk ekki að neinni, fyr en hann kom að litlum veggskáp yfir rúminu, og inni í honum fann hann gamla ryðgaða hljóðpípu. „Það gæti verið gaman að reyna hvort nokkuð heyrðist í henni“, sagði hermaðurinn við sjálfan sig og bljes í pípuna. En þá vissi hann ekki fyrri til en mikill vængjaþytur heyrðist, og alt varð krökt af fuglum kringum hann, eins og allir skógfuglar og mófuglar væru komnir.

„Hvað vill herra vor í dag?“ spurðu þeir. „Nú, ef jeg er herra ykkar“, sagði hermaðurinn, „þá þætti mjer gaman að vita, hvort þið gætuð ekki gefið mjer ráð til þess að komast upp á jörðina aftur“. — Ónei, enginn gat það nú, „en mamma er ekki enn komin“, sögðu fuglarnir, „og ef hún getur ekki hjálpað þjer, þá getur enginn það“. Svo bljes hermaðurinn einu sinni enn í pípuna, og eftir stutta stund heyrði hann vængjaþyt langt í burtu, og það var nú ekki neinn smáþytur. Það kom svo mikill stormur um leið, að hermaðurinn hefði fokið, ef hann hefði ekki náð sjer í skíðgarðinn umhverfis höllina. Og svo kom til hans örn, svo stór, að hermanninum varð ekki um að sjá hann.

„Það er naumast ferð á þjer“, sagði hermaðurinn.

„Jeg kem þegar þú blæst í pípuna“, sagði örnin.

Svo spurði hann, hvort hún kynni ráð til þess að komast aftur upp úr þessum heimi, sem þau voru í.

„Enginn, sem ekki getur flogið, kemst hjeðan“, sagði örnin. „En ef þú vilt slátra tólf uxum handa mjer, svo jeg geti borðað mig vel sadda, þá skal jeg reyna að