Blaðsíða:Norsk avfintyri b1.pdf/78

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur verið prófarkalesin

72

þú sem aldrei gerir annað en að róta í öskunni. Nei, þú færð ekkert nesti“, sagði hún. En Ásbjörn gafst ekki upp fyrir því, hann bað svo lengi um að fá að fara, að honum var loksins leyft það. En nesti fekk hann ekki, ekki að tala um, en hann laumaði inn á sig tveim hafrakökum og ölslatta í flösku og lagði af stað.

Þegar hann hafði gengið góða stund, mætti hann sama gamla farlama karlinum, sem bræður hans höfðu hitt.

„Hvert ætlar þú?“ sagði karlinn. „O, jeg ætlaði nú hjerna út í skóginn og byggja skip, sem siglir bæði á sjó og landi“, sagði Ásbjörn í öskustónni, „því að kóngurinn hefir sagt, að hver sem byggi slíkt skip, skuli fá dóttur sína og hálft ríkið“, sagði hann. — „Hvað hefir þú meðferðis“, spurði karlinn. „O, það á nú víst að heita nesti, en er nú ekki mikið nje gott“, sagði Ásbjörn. „Ef þú gefur mjer af nestinu þínu“, sagði karlinn, „þá skal jeg hjálpa þjer“. „Þáð skal jeg gera“, sagði Ásbjörn, „en jeg hefi ekki annað en tvær hafrakökur og svolítinn slatta af gömlu öli“. Karlinn sagði, að það væri sama, bara ef hann fengi bita, þá skildi hann hjálpa honum.

Þegar þeir komu að gamalli eik í skóginum, sagði karlinn við Ásbjörn, „Nú skaltu höggva þjer flís og setja hana svo aftur þar sem hún var, og þegar það er búið, þá skaltu leggjast til svefns.“ — Jú, Ásbjörn fór að eins og honum var sagt, en í svefni heyrðist honum altaf einhver vera að höggva og saga, en vaknað gat hann ekki, fyr en karlinn hristi hann, og þar stóð skipið tilbúið hjá eikinni. „Nú skaltu stíga á skip, og taka alla með þjer, sem þú hittir á leiðinni“, sagði hann. — Jú, Ásbjörn í öskustónni þakkaði fyrir skipið, sigldi af stað, og sagði að þetta skyldi hann gera.

Og skipið sigldi á landi

Þegar Ásbjörn hafði ekki lengi siglt, hitti hann stóran, horaðan slána, sem lá þar í klettum og át grástein.