Blaðsíða:Norsk avfintyri b1.pdf/82

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur verið prófarkalesin

76

ins, og sagði að nú væri skemman tóm, og nú yrði hann að fá kóngsdóttur.

Kóngur fór út í skemmuna, og tóm var hún, ekki var að efast um það, en Ásbjörn var bæði svartur og sótugur, og kónginum bauð enn við að gefa honum dóttur sína. Svo sagði hann, að hann ætti kjallara fullan af öli og gömlu víni, þrjú hundruð tunnur af hvoru, sem hann vildi láta drekka, áður en piltur fengi dóttur hans. „Og ef þú ert maður til þess að drekka upp úr kjallaranum og vera búinn um þetta leyti á morgun, þá skaltu fá hana,“ sagði kóngur.

„Jeg verð að reyna“, sagði Ásbjörn, „en jeg má líklega hafa einn af fjelögum mínum með mjer?“

„Já, blessaður vertu“, sagði kóngur. „Það er víst nóg af víni handa ykkur öllum sjö“!

Ásbjörn tók þann með sjer, sem altaf saug kranann, og sem altaf var svo þyrstur, og svo læsti kóngur þá inni í kjallaranum. Þar slepti náunginn krananum og drakk tunnu eftir tunnu og leyfði bara nokkrum pottum handa fjelögum sínum. Um morguninn var kjallarinn opnaður og um leið þaut Ásbjörn inn til kóngsins og sagði, að hann væri búinn með ölið og vínið, og nú fengi hann kóngsdóttur, eins og búið væri að lofa.

„Ja, fyrst verð jeg að fara niður og gá að“, sagði kóngur, því að hann trúði þessu hreint ekki, en þegar hann kom í kjallarann, voru þar allar tunnur tómar. En enn fanst kóngi ómögulegt að eignast svona svartan og sótugan tengdason, og sagði að ef hann gæti útvegað vatn í teið prinsessunnar, alla leið af heimsenda á 10 mínútum, þá skyldi hann bæði fá stúlkuna og hálft ríkið, því það hjelt kóngur að væri gersamlega ómögulegt.

„Jeg verð að reyna“, sagði Ásbjörn. Svo náði hann í náungann, sem haltraði á öðrum fæti, og hafði sjö þung lóð bundin við hinn, og sagði honum, að hann yrði