Blaðsíða:Norsk avfintyri b1.pdf/95

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur verið prófarkalesin

89

Smiðurinn, sem kölski þorði ekki að hýsa

Einu sinni á þeim dögum, þegar Drottinn og Sankti Pjetur gengu um kring niðri á jörðunni, komu þeir til járnsmiðs nokkurs. Þessi smiður hafði samið um það við kölska, að hann ætti hann eftir sjö ár, ef hann væri allan þann tíma leiknastur af öllum smiðum í iðninni, og bæði smiðurinn og sá gamli höfðu ritað nöfn sín undir samninginn. Þessvegna hafði smiðurinn látið rita yfir smiðjudyrnar: „Hjer býr meistari allra meistara.“

Þegar Drottinn kom og sá þetta, gekk hann inn.

„Hver ert þú,“ sagði hann við smiðinn.

„Lestu það sem stendur yfir dyrunum,“ svaraði smiðurinn, „en kanske þú kunnir ekki að lesa skrift, og þá verðurðu að bíða, þangað til einhver kemur, sem getur hjálpað þjer“.

Áður en Drottinn hafði svarað, kom maður með hest og bað smiðinn um að járna hann fyrir sig.

„Mætti jeg ekki járna þenna hest?“ spurði Drottinn.

„Reynt geturðu það,“ sagði smiðurinn. „Ekki geturðu gert það verr en svo, að jeg geti lagað það aftur.“

Drottinn gekk þá út og tók einn fótinn af hestinum, lagði hann í eldinn og gerði skeifuna glóandi, því næst hvesti hann naglana, negldi þá í og setti svo fótinn á hestinn aftur, síðan fór hann eins með hina fæturna, uns hann hafði járnað hestinn.

Smiðurinn stóð og horfði á hann. „Þú ert alls ekki svo ljelegur smiður,“ sagði hann.

„Finnst þjer það,“ sagði Drottinn.