Blaðsíða:RNABindi1.pdf/27

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Þessi síða hefur ekki verið villulesin


1. KAFLI – VERKEFNI OG SKIPAN NEFNDARINNAR

R ANNSÓKNARNEFND A L Þ I N G I S

Sama gilti um upplýsingar sem óheimilt var að lögum að veita fyrir dómi nema með samþykki ráðherra, forstöðumanns eða annars yfirmanns viðkomandi, jafnt hjá hinu opinbera sem einkafyrirtæki. Vegna framangreinds lagaákvæðis fékk rannsóknarnefndin í hendur trúnaðargögn frá íslenskum stjórnvöldum og fjármálafyrirtækjum sem vörðuðu viðfangsefni rannsóknarinnar og um var beðið. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 142/2008 hvílir þagnarskylda á nefndarmönnum og starfsmönnum hennar um upplýsingar sem leynt eiga að fara. Samkvæmt 4. mgr. 4. gr. sömu laga stendur þessi þagnarskylda nefndarmanna þó ekki í vegi fyrir því að nefndin geti birt upplýsingar í skýrslu sinni til Alþingis sem annars væru háðar þagnarskyldu, ef nefndin telur slíkt nauðsynlegt til að rökstyðja niðurstöður sínar. Nefndin skal þó því aðeins birta upplýsingar um persónuleg málefni einstaklinga, þ.m.t. fjármál þeirra, að verulegir almannahagsmunir af því að birta upplýsingarnar vegi þyngra en hagsmunir þess einstaklings sem í hlut á. Á grundvelli fyrrnefnds ákvæðis eru í skýrslu þessari birtar upplýsingar sem að öðrum kosti væru undanþegnar aðgangi almennings. Þannig er í skýrslunni gerð grein fyrir efni vinnuskjala stjórnvalda, fundargerða ríkisstjórnar, minnisgreina frá ráðherrafundum og bréfaskiptum við önnur ríki og fjölþjóðastofnanir að því leyti sem þau varpa ljósi á rannsóknarefni nefndarinnar. Á sama hátt er fjallað um fjárhagsmálefni þeirra fjármálafyrirtækja sem undir rannsóknina falla og stærstu lántakenda þeirra að því leyti sem þörf er á til að útskýra rannsóknarefnið og rökstyðja niðurstöður nefndarinnar. Í samræmi við fyrrgreint ákvæði er á hinn bóginn ekki fjallað um persónuleg málefni einstaklinga nema almannahagsmunir af því að birta upplýsingarnar vegi þyngra en hagsmunir þess einstaklings sem í hlut á að mati nefndarinnar.

1.6 Um mistök, vanrækslu og refsiverða háttsemi svo og aðrar aðfinnslur Það var ekki hlutverk rannsóknarnefndar Alþingis að annast sakamálarannsókn á ætlaðri refsiverðri háttsemi í aðdraganda og tengslum við þrot fjármálafyrirtækjanna. Það fellur undir embætti sérstaks saksóknara samkvæmt lögum nr. 135/2008. Í 1. mgr. 14. gr. laga nr. 142/2008 er á hinn bóginn mælt svo fyrir að vakni grunur við rannsókn nefndarinnar um að refsiverð háttsemi hafi átt sér stað beri nefndinni að kynna það ríkissaksóknara sem taki síðan ákvörðun um hvort rannsaka beri málið í samræmi við lög um meðferð sakamála. Á grundvelli þessa ákvæðis hefur nefndin sent ríkissaksóknara tilkynningar um mál sem tengjast rannsókn nefndarinnar. Upplýsingar um þessar tilkynningar er að finna í kafla 22 í samræmi við fyrirmæli 5. mgr. 14. gr. laga nr. 142/2008. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 142/2008 skyldi rannsóknarnefnd Alþingis leggja mat á hvort um mistök eða vanrækslu hafi verið að ræða við framkvæmd laga og reglna um fjármálastarfsemi á Íslandi og eftirlit með henni. Í athugasemdum með 1. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 142/2008 var tekið fram að hér væri athyglinni fyrst og fremst beint að stofnunum ríkisins og ráðuneytum sem störfuðu á þessum sviðum.1 Þá var tekið fram að með mistökum og vanrækslu væri ekki aðeins vísað til þess þegar tilteknar athafnir

1. Alþt. 2008-2009, A-deild, bls. 1076.

27