Fara í innihald

Brennu-Njáls saga/53

Úr Wikiheimild
Brennu-Njáls saga
53. kafli


Það var um vorið að Otkell mælti að þeir mundu ríða austur í Dal að heimboði og létu allir vel yfir því. Skammkell var í för með Otkatli og bræður hans tveir, Auðúlfur og þrír menn aðrir. Otkell reið hinum bleikálótta hesti en annar rann hjá laus. Stefna þeir austur til Markarfljóts. Hleypir hann nú fyrir Otkel. Ærast nú báðir hestarnir og hlaupa af leiðinni upp til Fljótshlíðar. Fer Otkell nú meira en hann vildi.

Gunnar hafði farið heiman einn samt af bæ sínum og hafði kornkippu í annarri hendi en handöxi í annarri. Hann gengur á sáðland sitt og sáir þar niður korninu og lagði guðvefjarskikkju sína niður hjá sér og öxina og sáir nú korninu um hríð.

Nú er að segja frá Otkatli að hann ríður meira en hann vildi. Hann hefir spora á fótum og hleypir neðan um sáðlandið og sér hvorgi þeirra Gunnars annan. Og í því er Gunnar stendur upp ríður Otkell á hann ofan og rekur sporann við eyra Gunnari og rístur hann mikla ristu og blæðir þegar mjög. Þar riðu þá félagar Otkels.

„Allir megið þér sjá,“ segir Gunnar, „að þú hefir blóðgað mig og er slíkt ósæmilega farið. Hefir þú stefnt mér fyrst en nú treður þú mig undir fótum og ríður á mig.“

Skammkell mælti: „Vel er við orðið bóndi en hvergi varst þú óreiðulegri á þinginu þá er þú tókst sjálfdæmið og þú hélst á atgeirinum.“

Gunnar mælti: „Þá er við finnumst næst skalt þú sjá atgeirinn.“

Síðan skilja þeir að því.

Skammkell æpti upp og mælti: „Hart ríðið þér sveinar.“

Gunnar gekk heim og gat fyrir engum manni um og ætluðu engir að þetta mundi af mannavöldum vera. Einu hverju sinni var það að hann sagði Kolskeggi bróður sínum.

Kolskeggur mælti: „Þetta skalt þú segja fleirum mönnum að eigi séþað mælt að þú gefir dauðum sök því að þrætt mun vera í móti ef eigi vita vitni áður hvað þér hafið saman átt.“

Gunnar sagði nábúum sínum og var lítil orðræða á fyrst.

Otkell kemur austur í Dal og er þar við þeim vel tekið og sitja þar viku. Otkell sagði Runólfi allt hversu fór með þeim Gunnari. Einn maður varð til að spyrja að því hversu Gunnar varð við.

Skammkell mælti: „Það mundi mælt ef ótiginn maður væri að grátið hefði.“

„Illa er slíkt mælt,“ segir Runólfur, „og munt þú það eiga til að segja næst er þið finnist að úr sé grátraust úr skapi hans. Og væri það vel ef eigi gyldu betri menn þinnar illsku. Líst mér nú hitt ráð þá er þér viljið heim fara að eg fari með yður því að Gunnar mun eigi gera mér mein.“

„Eigi vil eg það,“ segir Otkell, „og munum vér ríða neðarlega yfir fljótið.“

Runólfur gaf Otkatli góðar gjafar og kvað þá eigi sjást mundu oftar. Otkell bað hann þá muna syni sínum ef svo bæri við það er með þeim var vel.