Brennu-Njáls saga/60

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Ásgrímur Elliða-Grímsson hafði mál að sækja á þinginu. Það var erfðamál. Málinu átti að svara Úlfur Uggason. Ásgrími tókst svo til sem sjaldan var vant að vörn var í máli hans. En sú var vörnin að hann hafði nefnt fimm búa þar sem hann átti níu. Nú hafa þeir þetta til varna.

Þá mælti Gunnar: „Eg mun skora þér á hólm Úlfur Uggason ef menn skulu eigi ná af þér réttu máli.“

„Ekki á eg þetta við þig,“ segir Úlfur.

„Fyrir hitt mun þó ganga,“ segir Gunnar, „og mundi það Njáll ætla og Helgi vinur minn að eg mundi hafa nokkura vörn í máli með þér Ásgrímur ef þeir væru eigi við.“

Lauk svo því máli að Úlfur hlaut að greiða féið allt.

Þá mælti Ásgrímur til Gunnars: „Heim vil eg þér bjóða í sumar og jafnan skal eg með þér vera í málaferlum en aldrei í móti þér.“

Ríður Gunnar heim af þingi.

Litlu síðar fundust þeir Njáll. Njáll bað Gunnar vera varan um sig, kvað sér sagt að þeir undan Þríhyrningi ætluðu að fara að honum og bað hann aldrei fara við fámenni og hafa jafnanvopn sín. Gunnar kvað svo vera skyldu. Hann sagði Njáli aðÁsgrímur hefði boðið honum heim „og ætla eg að fara nú í haust.“

„Lát þú enga menn vita,“ segir Njáll, „áður þú ferð eða hversu lengi þú ert í brautu. En eg býð þér þó að synir mínir ríði með þér og mun eigi þá á þig ráðið.“

Réðu þeir það þá með sér.

Nú líður á sumarið til átta vikna. Þá mælti Gunnar við Kolskegg: „Bú þú ferð þína því að nú skulum vér ríða til heimboðs í Tungu.“

„Skal nú ekki orð gera Njálssonum?“ sagði Kolskeggur.

„Ekki,“ sagði Gunnar, „eigi skulu þeir hljóta vandræði af mér.“