Brennu-Njáls saga/75
Þráinn Sigfússon sagði það konu sinni að hann ætlaði að fara utan það sumar. Hún kvað það vel vera. Tók hann sér þá fari með Högna hinum hvíta. Gunnar tók sér fari með Arnfinni hinum víkverska og Kolskeggur bróðir hans.
Þeir Grímur og Helgi Njálssynir báðu föður sinn að hann leyfði þeim að fara utan.
Njáll mælti: „Erfið mun ykkur verða utanferð sjá svo að tvísýnt mun ykkur verða þykja hvort þið haldið lífinu en þó munuð þið fá sæmd í sumu og mannvirðing en eigi örvænt að af leiði vandræði er þið komið út.“
Þeir báðu jafnan að fara og það varð að hann bað þá fara ef þeir vildu. Réðu þeir sér þá far með Bárði svarta og Ólafi syni Ketils úr Eldu. Og er nú mikil umræða á að mjög leysist á braut hinir betri menn úr sveitinni.
Þeir voru þá frumvaxta synir Gunnars, Högni og Grani. Þeir voru menn óskaplíkir. Hafði Grani mikið af skaplyndi móður sinnar en Högni var vel að sér.
Gunnar lætur flytja vöru þeirra bræðra til skips. Og þá er öll föng Gunnars voru til skips komin og skip var mjög búið þá ríður Gunnar til Bergþórshvols og á aðra bæi að finna menn og þakkaði liðveislu öllum þeim er honum höfðu lið veitt.
Annan dag eftir býr hann snemmendis ferð sína til skips og sagði þá öllu liði að hann mundi ríða í braut alfari og þótti mönnum það mikið en væntu þó tilkomu hans síðar. Gunnar hverfur til allra heimamanna sinna er hann var búinn og gengu menn út með honum allir. Hann stingur niður atgeirinum og stiklar í söðulinn og ríða þeir Kolskeggur í braut. Þeir ríða fram að Markarfljóti. Þá drap hestur Gunnars fæti og stökk hann af baki.
Honum varð litið upp til hlíðarinnar og bæjarins að Hlíðarenda. Þá mælti hann: „Fögur er hlíðin svo að mér hefir hún aldrei jafnfögur sýnst, bleikir akrar en slegin tún, og mun eg ríða heim aftur og fara hvergi.“
„Ger þú eigi þann óvinafagnað,“ segir Kolskeggur, „að þú rjúfir sætt þína því að þér mundi engi maður það ætla. Og munt þú það ætla mega að svo mun allt fara sem Njáll hefir sagt.“
„Hvergi mun eg fara,“ segir Gunnar, „og svo vildi eg að þú gerðir.“
„Eigi skal það,“ segir Kolskeggur, „hvorki skal eg á þessu níðast og á engu öðru því er mér er til trúað og mun sjá einn hlutur svo vera að skilja mun með okkur en seg það móður minni og frændum mínum að eg ætla ekki að sjá Ísland því að eg mun spyrja þig látinn frændi og heldur mig þá ekki til útferðar.“
Skilur þá með þeim. Ríður Gunnar heim til Hlíðarenda en Kolskeggur ríður til skips og fer utan.
Hallgerður var fegin Gunnari er hann kom heim en móðir hans lagði fátt til. Gunnar situr nú heima þetta haust og veturinn og hafði ekki margt manna um sig. Líður nú vetur úr garði.
Ólafur pái sendi Gunnari mann og bað hann fara vestur þangað og Hallgerði en fá bú í hendur móður sinni og Högna syni sínum. Gunnari þótti það fýsilegt fyrst og játaði því en þá er að kom þá vildi hann eigi.
En á þingi um sumarið lýsa þeir Gissur sekt Gunnars að Lögbergi. En áður þinglausnir voru stefndi Gissur öllum óvinum Gunnars í Almannagjá: Starkaði undan Þríhyrningi og Þorgeiri syni hans, Merði og Valgarði hinum grá, Geir goða og Hjalta Skeggjasyni, Þorbrandi og Ásbrandi Þorleikssonum, Eilífi og Önundi syni hans, Önundi úr Tröllaskógi, Þorgrími austmanni úr Sandgili.
Gissur mælti: „Eg vil bjóða yður að vér förum að Gunnari í sumar og drepum hann.“
Hjalti mælti: „Því hét eg Gunnari hér á þingi þá er hann gerði mest fyrir mín orð að eg skyldi aldrei vera í aðförum við hann og skal svo vera.“
Síðan gekk Hjalti í braut en þeir réðu aðför við Gunnar er eftir voru og höfðu handtak að og lögðu við sekt ef nokkur gengi úr. Mörður skyldi halda njósnum til nær best gæfi færi á Gunnari og voru þeir fjórir tigir manna í þessu sambandi. Þótti þeim sér nú lítið mundu fyrir verða að veiða Gunnar er í brautu var Kolskeggur og Þráinn og margir aðrir vinir Gunnars. Riðu menn heim af þingi.
Njáll fór að finna Gunnar og sagði honum sekt hans og ráðna aðför við hann.
„Vel þykir mér þér fara,“ sagði Gunnar, „er þú gerir mig varan við.“
„Nú vil eg,“ segir Njáll, „að Skarphéðinn fari til þín og Höskuldur sonur minn og munu þeir leggja sitt líf við þitt líf.“
„Eigi vil eg það,“ segir Gunnar, „að synir þínir séu drepnir fyrir mínar sakar og átt þú annað að mér.“
„Fyrir ekki mun það koma,“ sagði Njáll. „Þangað mun snúið vandræðum þá er þú ert látinn sem synir mínir eru.“
„Eigi er það ólíklegt,“ segir Gunnar, „en eigi vildi eg að það hlytist af mér til. En þess vil eg biðja þig og yður feðga að þér sjáið á með Högna syni mínum. En eg tala þar ekki til er Grani er því að hann gerir margt ekki að mínu skapi.“
Njáll hét því og reið heim.
Það er sagt að Gunnar reið til allra mannfunda og lögþinga og þorðu aldrei óvinir hans á hann að ráða. Fór svo fram nokkura hríð að hann fór sem ósekur maður.