Fossaföll
Útlit
eftir Stephan G. Stephansson
- I.
- Ég flý til þín, er sumarsöngvar falla
- af sólskinsleysi, iðjuvarmi foss.
- Er uppi um daprar dauðagöngur fjalla
- allt draumalíf er hnigið með sinn kross,
- þú hvessir raust, er innisætur æja
- með önnungs vol og dægrin norpa hljóð.
- Af hlíðarbrúnum heim í fylgsnin bæja
- um heiðaþagnir titrar þú í óð.
- Ég veit þig einan allan verða að ljóðum,
- þá allt er frost og dimmulengst er nótt,
- þá snýstu í söng og ei með hálfum hljóðum
- og hásri trumbu — en veðrið í þig sótt!
- Við hengiflugin hlærðu milli landa,
- og hljómar leika í vökum sérhvers spors.
- Og undir hindrun ætlar þó að standa
- og ísinn kljúfa fram til næsta vors.
- Þó hamraskuggar höndum um þig spenni,
- úr hrikabergi stuðlaföll þú slær
- með mánagullið gustað fram á enni
- og geiminn stjarna á floti þér við tær.
- En hvílíkt veldi vöku uppi að halda
- í varmaleysu og allra hlíða þröng,
- í myrkradjúp og undir ísinn kalda
- og endalausa að hrynja í sterkum söng!
- II.
- Úr öllum þínum söng er glötuð sálin,
- þó segi eg, foss minn, kvæðið eftir þig —
- já, þó að inn að hjarta huliðsmálin
- í hljómum þínum titri gegnum mig.
- III.
- „Er drápshríð mönnum ægði, jafnvel inni,
- hún æpti að þeim um veðurgrimma nótt:
- Þið skylduð breyta byljaillsku minni
- í bataleið sem hverjum stórum þrótt.
- Og hvatur hugur vegu ætti að vita
- að veðurgerð, í bæ við fjall og ós,
- sem sneri minni helju upp í hita
- og hríðarmyrkurs nauð í glaða ljós!
- Við aldasöng þann æsti hún höf og sundin
- og æddi um sveit og vann þar skaða sinn.
- — En ég er foss, við fjallastallinn bundinn,
- og fel í straumlegg hitaneistann minn.
- Ég missa þarf ei mína fornu prýði
- í megingerð né röst mín verða lygn,
- því listin kann að draga upp dvergasmíði
- sem dyratré að minni frjálsu tign.
- Ég hef ei neitt á höndum, þó ég geisi
- og hindrun engin verði mér að bið.
- En dauði og eyðing eru kraftaleysi,
- en afl er það, sem heldur lífi við.
- Og ég er inni í hömrum, hjarta fjallsins,
- við hjarnið dautt, sem eitt um lífið slóst,
- og leitt ég gæti heilsu í hvamma dalsins
- og hitagróður um þess kalda brjóst.
- En magnið mitt, en iðjuleysið ekki,
- til illra heilla gæti sljóva leitt.
- Ég kann að smíða harða þrælahlekki
- á heilan lýð, ef mér er til þess beitt.
- Ég orðið gæti löstur mesti í landi
- og lækkun þjóðar — öðrum þannig fer —
- sé gamla Þóris gulli trylltur andi,
- sem gekk í fossinn, vakinn upp í mér.
- Mig langar hins, eins lengi og fjallið stendur,
- að lyfta byrði, er þúsund gætu ei reist,
- og hvíla allar oftaks lúnar hendur
- á örmum mér, er fá ei særst né þreyst,
- og veltu mína vefa láta og spinna,
- minn vatnaaga lýja skíran málm
- og sveita-Huldum silkimöttul vinna
- og Sindrum hafsins gulli roðinn hjálm.
- Með silfurúðans sólskinsaugna fjölda
- ég sá úr dalshlíð margra alda ferð,
- um héröð morgna og kynslóðunum kvölda,
- og komutíma sjáandinn ég verð!
- Hér býð ég öllum Íslands heillavættum
- mín öfl og fegurð, mannheimsaldra löng.
- Og verða skyldi eg auðna fram í ættum
- og inna af höndum bjargir við minn söng.“
- IV.
- Úr öllum þínum söng er glötuð sálin,
- þó segi ég, foss minn, kvæðið eftir þig —
- já, þó að inn að hjarta huliðsmálin
- í hljómum þínum titri gegnum mig.
- Andvökur, úrval Sigurðar Nordals, 2. útgáfa 1980.