Grágás/12

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Páska helgi eigum vér að halda. Það eru dagar 4. Páskadag hinn fyrsta, hann skulum vér halda sem jóladag hinn fyrsta, en annan dag páska og hinn 3. og miðvikudag. Þá skulum vér halda sem drottins dag. En frá páskadeginum fyrsta skulu vera vikur 5 til drottins dags þess er gangdaga vika hefst upp eftir. Annan dag viku í gangdögum og hinn 3. og miðvikudag skulum vér halda sem laugardag, en fasta einmælt, þeir menn til þess eru taldir. Rétt er að hafa hvítan mat um nótt ef vill. Ef ber á annan dag viku eða hinn 3. í gangdögum Filippus messu eða Jakobs eða krossmessu eða kirkjudag, og er rétt að eta tvímælt og eigi kjöt. Ef ber á miðvikudag í gangdögum messudagana og skal fasta sem áður. En 5. dagur viku í gangdögum er uppstigningardagur. Hann skulum vér halda sem páska dag. Frá páska deginum fyrsta skulu vera vikur 7 til drottins dags í hvítadögum. Þar er vika heil í milli og gangdaga viku. Laugardag fyrir hvítadaga er mönnum skylt að fasta dag föstu. Drottins dag í hvítadögum skal halda sem páska dag. Annan dag viku og 3. dag skulum vér halda sem drottins dag. Miðvikudag er mönnum rétt að bera klyfjar ef menn færa bú sín og ferja farma og vöru sína til skips, reka fé sitt í afrétt og klippa sauði.