Grágás/16

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Um langaföstu og um imbrudaga og föstudaga alla og þvottadag fyrir hvítadaga þá varðar manni fjörbaugsgarð ef kjöt etur, en um allar föstutíðir aðrar og verður maður útlægur 3 mörkum þótt hann eti kjöt og á sá sakar þær er vill. Útlægur verður ávallt sá maður er til föstu er talinn ef hann hefur hvítan mat þá er lögfasta er, annan en kjöt, og skal stefna heiman og kveðja til heimilis búa 5 til útlagar sakanna.

Ef maður verður svo staddur í úteyjum um langaföstu að hann hefur ekki annan mat en kjöt og skal hann heldur eta en fara öndu sinni fyrir matleysi. Hann skal eigi eta imbrudaga kjöt eða föstudaga. Svo skal hann eta að hann ali önd sína við en eigi skal hann hyldast á. Gengið skal hann hafa til skriftar við kennimann á 7 nóttum hinum næstum er hann kemur úr eyjunni.

Það er kjöt er menn láta af naut eða fær sauði og geitur og svín. Ef svín kemur á hrossakjöt og skal hann ala 3 mánuði og fella hold af en feita aðra 3. Ef svín kemur á mannshræ og skal ala 6 mánuði og fella hold af ef hylst hefur á, en fita aðra 6 mánuði þá er rétt að nýta svín.

Björn eiga menn að veiða og nýt hvort sem er viðbjörn eða hvítabjörn og rauðdýri, hjört og hrein. Það skal eta þá er kjötætt er. Rosmhval og sel skal eta á þeim tíðum að eins er kjötætt er. Fugla eiga menn að eta þá er á vatni fljóta. Klófugla skulu menn eigi nýta, þá er hrækló er á. Erni og hrafna eða vali eða smyrla. Rétt er að eta hænsn og rjúpur. Þar eru egg æt undan þeim fuglum er fuglar eru ætir. Á þeim tíðum skal egg eta er menn eta hvítan mat.

Kvikfé eiga menn að nýta það er sjálfir láta af. Þó er rétt að nýta þótt eigi láti sjálfir af ef maður veit hvað verður hvort sem ferst í vötnum eða drepa skriður eða hríðir eða hvað það er því verður þess er maður veit. Þá skal það fé nýta nema svipdauði verði og gefa af hinn 5. hlut af öllu fé nema maður sæfi. Hafa gefið á 7 nóttum hinum næstum. Þaðan frá er fé fór af innanhreppsmönnum er eigi eiga þingfararkaupi að gegna. Sekur er hann um 3 mörkum ef hann gefur ekki svo.

Kálf skal ala 3 nætur. Þó er rétt að nýta þótt hann sé fyrr skorinn ef honum er matur gefinn og efa af hinn 5. hlut. Það fé er ekki ætt er maður veit að mannsbani verður. Hross eiga menn ekki að eta og hunda og melrakka og ketti og hin engin klódýr og ekki hræ fugla. Ef maður etur þau dýr er frá eru skilin og varðar honum það fjörbaugsgarð.

Þeim manni er skylt að fasta lögföstur er hann er 12 vetra gamall að sumarmálum áður. Eigi skal honum vetur telja ef hann er svo alinn að nokkur nótt er af vetri. maður á að halda lögföstu sinni uns hann er sjötugur. Heill maður á að fasta lögföstu en ekki sá er sjúkur er. Yngri maður en 12 vetra en eldri en sjötugur er ekki skyldur að fasta nema vilji. Konu þeirri er ekki skylt að fasta er barn hefur kvikt í kviði. Kona sú er eigi til föstu talið er barn hefur á brjósti hina fyrstu langaföstu. Ekki skal það lengur standa fyrir lögföstu þeirra en eina föstu.

Jafnskylt er þeim mönnum að varna við kjöti á föstutíðum sem hinum er til föstu eru taldir. Sá maður er varðveitir hinn unga mann eða hinn óvitra og lætur hann eta kjöt á föstutíðum eða óæti þótt eigi séu föstutíðir og varðar honum svo við lög sem hann æti sjálfur en ekki hinum er etur, ef hann átti ekki vit til að sjá við. Ef maður ber í mat manns það er eigi er ætt og vill hann gera til háðungar honum og varðar honum fjörbaugsgarð en ekki hinum er etur.