Grágás/2

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Lík hvert skal til kirkju færa það er að kirkju á lægt svo sem menn verða búnir fyrst til. Ef arftökumaður er hjá hinum andaða og á hann að færa lík til kirkju og sá maður er hann biður til. Ef eigi er erfingi hjá eða hann er eigi fulltíða og skal búandi sá færa til kirkju er vist veitti hinum andaða síðast. Ef hvergi er hjá erfingi né búandi og skulu þeir lögfastir menn þá færa lík til kirkju er þar eru næstir og taka af fé því er hinn andaði átti, léreft eða vaðmál, og búa um lík. Ef sá átti eigi fé til, og er hinn skyldur að fá til að búa um lík er til kirkju færir.

Löghelga daga alla er mönnum rétt að búa um lík og gera kistu að og með að fara og grafa, nema tvo á 12 mánuðum: páskadag hinn fyrsta og jóladag hinn fyrsta. Með á að fara föstudag hinn langa en eigi á jörð að opna til þess að grafa niður lík.

Til þeirrar kirkju skal lík færa er biskup lofar gröft að. Búandi er skyldur að ala þann mann er lík færir til kirkju með fimmta mann og hross eða eyk ef þeim fylgir. Ef hann synjar þeim, og er hann þá útlægur 3 mörkum, og á sá sök er vistar er synjað. Stefna skal heiman og kveðja til búa 5 á þingi.

Sá maður er kirkju varðveitir á gröft uppi að láta og skal þar grafa sem hann ræður og prestur sá er þar er.

Lík skal eigi bera í kirkju bert eða blóðugt. Eigi skal þess manns lík í kirkju bera er eigi átti kirkjugengt meðan hann lifði. Ef maður ber þess manns lík í kirkju er frá er skildur og skal hann bæta löstinn kirkjunni 12 aurum. Ef vill eigi gjalda það fé, og verður hann útlægur um það 3 mörkum og á þó að inna kirkjunni sitt fé.

Lík skal ekki grafa áður kólnað er. Ef maður grefur lík áður kalt er, og verður hann sekur um það 3 mörkum og á sá sök er vill. Ef menn hrapa svo grefti að kviður berr það að önd væri í brjósti manni þá er hann var niðurgrafinn, og verður það að morði þá.

Leg skulu öll vera jafndýr, hvort sem eru nær kirkju eða fjær í kirkjugarði. 12 álnum skal kaupa leg undir mann nema barn sé tannlaust. Þar skal kaupa hálfa ódýra. 6 álnir skal prestur hafa fyrir líksöng.

Sá skal gjalda legkaup og líksöngskaup er lík færir til kirkju. Hann skal þar gjalda á kirkjubæ þeim er lík var grafið hinn 5. dag viku þá er 4 vikur eru af sumri þar í túni fyrir karldyrum. Sá maður er kirkju varðveitir og prestur á hvor þeirra að nefna votta að um sitt fé ef eigi kemur fram og er rétt þar að stefna um og telja hinn sekan 3 mörkum um haldið. Hinn svarar réttu fyrir sig þá er hann færði lík til kirkju ef hann bauð þeim að handsala það fé ef þeir áttu gjalddaga saman og eindaga þar og skulu þeir taka þau handsöl. Sá er lík færði til kirkju þá á að hafa af fé hins andaða sína aura eða heimta að erfingjum ef hinn veg var ekki til. Ef hvergi átti til hinn andaði eða erfingi hans og tekur eigi þar fé er eigi er til þá skal veita leg og líksöng. Nú viðar til sums en eigi til alls. Til þess skal fyrst hafa fé að búa um lík og þá að kaupa líksöng. Legkaup skal síðast vinna.

Ef göngumaður andast inni að manns og skal búandi færa lík hans til kirkju. Ef sá maður hafði fé á sér hinn andaði og skal þar taka af til þurftar honum. Ef hann hafði þar meira fé eða átti í öðrum stöðum og á búandi að taka það fé sá er honum veitti víst er hann andaðist, nema honum væri tekin vist að lögfardögum sú er honum væri vært við, og gengi hann að sínu ráði á braut, en eigi frænda, og á búandi að taka það fé er sá maður hafði þangað haft er þar andaðist og eigi meira. Það fé eiga frændur hins andaða er hann hafði átt í öðrum stöðum.

Ef lík er fært úr þingum prests þá er hann skyldur að fylgja því til grafar ef honum eru áður orð ger, enda sé það innan hrepps og skal hann þá hafa líksöngskaup og svo ef honum eru eigi orð ger þótt hann fari hvergi. Eigi er prestur skyldur að fylgja líki og hrepp ef þar er nokkur graftarkirkja. En ef hann vill eigi fylgja sem nú var tínt þá á sá líksöngskaup er yfir syngur. Ef prestur er svo farinn og þingum sínum að hann hefur engan fengið í stað sinn, þá á hann eigi að hafa líksöngskaup, þótt menn andist þar.

Ef maður andast í úteyjum og eru þeir menn skyldir að færa lík til kirkju er á meginlandi ætti til að færa eða búðnautar ef hann andast í fiskiskála. Sá á skips að ljá er beðinn er ef til á. Ef maður varnar skips eða farar sá er bændur er og verður hann útlægur um það 3 mörkum. Ef maður andast á þingum eða leiðum og skulu búðnautar hans færa lík til kirkju. Ef maður andast á þingvelli eða leiðarvelli eftir er menn eru á braut farnir og á sá maður lík hans til kirkju að færa er næst býr þeirra manna er 2 húskarla á og um sjálfum sér. Ef maður andast á þingvelli eftir er menn eru á braut farnir af þingi, og skal búandi sá færa lík til kirkju er hér býr á þingvelli. Ef maður andast í farmannabúðum og skulu búðnautar færa lík til kirkju. Ef maður andast á förnum vegi, og skulu förunautar hans færa lík til kirkju.

Ef sjór eða vatn kastar líkum á land og skal landeigandi færa lík þau til kirkju. Ef fé rekur á land með líkum og skal þar taka af til þurfta þeim. Ef meira fé er og á landeigandi að halda því til dóms. Ef finnst lík göngumanns í haga úti og skal landeigandi færa lík hans til kirkju og eignast fé það er hinn hafði á sér. Ef hann átti meira fé hinn andaði og eiga frændur hans að taka það fé. Ef lík finnst í landi manns eða í úthúsum og á landeigandi að færa það til kirkju og varðveita fé ef hinn hafði á sér til handa frændum. Ef lík finnst á fjöllum þeim er vatnföll deila merki og skal sá maður færa lík til kirkju er næst býr vötnum þeim í héraði er næst spretta upp líkinu á fjallinu, enda eigi hann 2 húskarla og um sjálfum sér. Þangað skal til héraðs færa sem vötn falla. Ef lík finnst í afréttum eða í almenningum og á sá lík það að færa til kirkju er næst býr þeirra manna er á 2 húskarla og um sjálfum sér.

Ef maður færir eigi lík það til kirkju er hann er skyldur til að lögum að færa, og verður hann útlægur um það 3 mörkum og á sá sök er vill og skal stefna heiman og kveðja til heimilis búa 5 á þingi þess er sóttur er. Ef maður er sóttur um það að hann færði eigi lík til kirkju og verst hann máli ef hann getur þann kvið að hann hygði að sá maður ætti eigi kirkju lægt og fellur þá útlegð niður við hann. En dómur á að dæma á hendur honum að hafa til fært á 14 nóttum hinum næstum eftir vopnatak. Ef maður færir lík það til kirkju er eigi áti að kirkju lægt og varðar það fjörbaugsgarð, nema hann geti þann kvið að hann hygði að sá maður ætti kirkju lægt og skal hann frá hafa fært á 14 nóttum hinum næstum eftir þinglausn og bæta löstinn kirkjunni 12 aurum.

Fjögur eru lík þau er eigi skal að kirkju grafa: Það er lík eitt ef maður andast óskírður, annað er skógarmanns lík, þess er ódæll er og óferjandi, það skal og eigi að kirkju grafa nema biskup sá lofi er yfir fjórðungi þeim er. En ef biskup lofar, og skal þá til kirkju færa. Það er lík hið þriðja er eigi skal að kirkju grafa ef maður vinnur á sér verk þau er honum verða að bana, svo að hann vildi unnið hafa, nema hann fái iðrun síðan og gangi til skriftar við prest og skal þá grafa hann að kirkju. Þótt eigi nái prestfundi og segi hann ólærðum manni til að hann iðrast og svo þótt hann megi eigi mæla og geri hann þér jartegnir að menn finni að hann iðrist í huganum, þótt hann komi eigi tungunni til, og skal þó grafa hann að kirkju. Það er lík hið 4. er eigi skal að kirkju grafa ef biskup vill bannað hafa að grafa að kirkju. Það lík er eigi á að kirkju lægt. Það skal þar grafa er fyrr sé túngarði manns en í örskotshelgi við og hvorki sé akur né engi og eigi falli vötn af til bólstaða og syngja eigi líksöng yfir.