Grágás/29

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Ef 6 dómendur eru út komnir eða fleiri að það er rétt þeim manni er með sakar fer að bjóða til hlutfalla að dómi, þeim mönnum öllum er sakar hafa í dóm þann, og kveða á stað þann er þeir skulu hluta fram sögur með sér. Hver maður þeirra er sök hefir með að fara í dóm, þá skal hlut bera í skaut 1 þótt hann hafi fleiri sakir í dóm þann. Hver maður skal merkja hlut sinn, og bera alla saman í skaut, og skal maður taka 4 hluti senn upp. Ef sá maður kemur á gjábakka hinn vestra, úr lögsögu manns rúmi að sjá, og verður hann sekur um það 3 mörkum, og á sá sök er hann hefir mál á höndum. Skal sök þeirri stefna að Lögbergi og kveðja heimilisbúa 5 þess manns er sóttur er, ef hann getur þann kvið að hann mundi fyrr út koma ef sól um sæi, og verst hann þá sökinni. Þeir skulu fyrst segja sakar sinnar fram sem hljóta, svo hver að öðrum sem hlotið hafa. Nú koma sumir eigi til hlutfallsins, þá skulu þeir síðast fram segja. Það er og rétt að annar maður beri hlut hans í skaut, og skal þá að þeirra hlutun fram segja. Þær sakir skal eigi hluta er eigi varð fyrra sumar um dæmt, ef þær eru eigi fleiri en 4 enda eigi færi. Þá skulu þeir hluta með sér sakirnar, ef þær eru fleiri en 4. Þær sakir skal allar fyrstar segja fram, en þær sakir næst er hér hafa gerst á þingi. Ef sá verður eigi búinn til er fyrstur hefur hlotið þá skal sá biðja lofs til, er síðar hefur hlotið, að segja sök sína fyrri fram, en hann skal lofa honum, en ef hann lofar honum eigi, þá er honum rétt að segja sök sína fram, ef hinn er eigi tilbúinn ef dómendur lofa.