Grágás/3

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Kirkja hver skal standa í sama stað sem vígð er, ef það má fyrir skriðum eða vatnagangi eða eldsgangi eða ofviðri eða héruð eyði að, úr afdölum eða út ströndum. Það er rétt að færa kirkju ef þeir atburðir verða. Það er rétt að færa kirkju ef biskup lofar. Ef kirkja er upp tekin mánuði fyrir vetur eða laskist hún svo að hún er ónýt og skulu lík og bein færð á braut þaðan fyrir veturnætur hinar næstu.

Til þeirrar kirkju skal færa lík og bein sem biskup lofar gröft að, þar er maður vill bein færa og skal landeigandi kveðja til búa 9 og húskarla þeirra svo sem til skips dráttar að færa bein. Þeir skulu hafa með sér pála og rekur. Hann skal sjálfur fá húðir til að bera bein í og eyki að færa. Þá búa skal hann kveðja er næstir eru stað þeim er bein skal upp grafa og hafa kvatt 7 nóttum fyrr en til þarf að koma eða meira mæli. Þeir skulu koma til í miðjan morguninn. Búandi skal fara og húskarlar þeir er heilindi hafa til, allir nema smalamaður. Þeir skulu hefja gröft upp í kirkjugarði utanverðum og leita svo beina sem þeir myndi fjár ef von væri í garðinum. Prestur er skyldur að fara til að vígja vatn og syngja yfir beinum sá er bændur er til.

Til þeirrar kirkju skal bein færa sem biskup lofar gröft að. Þar er rétt hvort sem vill að gera eina gröf að beinum eða fleiri. Um þau auðævi öll er kirkju þeirri hafa fylgt er upp voru tekin bein, hvort sem var í löndum eða lausum aurum eða kirkjubúnaði, það skal fara til kirkju þeirrar allt er bein eru færð til.

Ef landeigandi lætur eigi færa bein svo sem mælt er, eða fara menn eigi til þeir er kvaddir eru, og verður hver þeirra sekur 3 mörkum og á land eigandi sök við þá er kvaddir eru, en sá við hann er vill. Stefna skal heiman sökum þeim og kveðja 5 búa á þingi þess er sóttur er, enda skal dómur dæma á hendur þeim beinafærslu, að hafa fært til kirkju 14 nóttum eftir vopnatak.