Grágás/5

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Biskupa skulum vér hafa tvo á landi hér. Skal annar biskup vera að stóli í Skálaholti en annar að Hólum í Hjaltadali og skal sá hafa yfir för um Norðlendingafjórðung er í Hjaltadali er um sinn á 12 mánuðum. En sá biskup er í Skálaholti er skal hafa yfirför um fjórðunga 3 fara sitt sumar yfir hvern, Austfirðingafjórðung og Rangæingafjórðung og Vestfirðingafjórðung.

Biskup er við það skyldur, þá er hann fer um fjórðunga, að koma í löghrepp hvern svo að menn nái fundi hans og vígja kirkjur og sönghús og bænahús og biskupa börn og veita mönnum skriftagöngu. Þar er biskup vígir kirkju á hann að taka 12 aura en það fé gefur biskup til kirkju þeirrar er hann vígði þar. Þar er hann vígir sönghús eða bænahús skal hann taka 6 aura hvar sem hann vígir.

Búandi sá er vist veitir biskupi á að fá honum reiðskjóta þann dag er hann fer á braut. Húskarlar hans og búar eru skyldir að ljá hrossa biskupi þeir er hann biður til. Sekur er sá 3 mörkum er synjar ef hross er á til.

Biskup skal til þess láta segja í héraði hverju að kirkjusókn, hverjum í hönd skal inna fé það er menn skulu gjalda biskupi. Hver maður er skyldur að láta þangað koma fjórðung tíundar sinnar til þess búanda er biskup kveður á. Þar verður gjalddagi á því fé hinn 5. dag viku er 4 vikur eru af sumri. Ef eigi kemur fram féð svo sem mælt er og er þeim manni rétt er biskup hefur um boðið að nefna votta að að eigi fer gjald fram honum er rétt að stefna þar um og heimta sem aðra tíund, enda er rétt að hann lýsi til fjárins á þingi og eru hin sömu viðurlög. Þar er maður skal gjalda tíund biskupi, hann skal gjalda í gulli eða í brenndu silfri eða vaðmálum eða í vararfeldum. Þar er maður tekur við fé biskups að hans ráði og hverfi fé það eða glatist annan veg, og heldur sá eigi ábyrgð er við tók, ef hann getur kvið þann að hann færi svo með sem hann átti. Ef fé það verður þjófstolið er biskup átti, og er sá aðili þeirrar sakar er fé það hafði að varðveita, enda er rétt að sá sæki um er biskup vill. Rétt er manni að heimta fé biskups þar er hann býður um, þótt hann selji eigi sök í hönd manni. Eigi þarf þar vottorð til nema vilji.

Hvergi á fé að taka frá kirkju þótt tíðir séu frá teknar, nema þar er biskup lofar og landeigandi og sá er til gaf eða erfingi hans. Þar á braut að taka ef þeir verða ásáttir en hvergi annarsstaðar.