Grágás/6

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Prestar eiga að taka sér lögheimili að fardögum, enda er þeim rétt að þeir taki síðar allt til lögleiðar, þeirrar er verður drottinsdaginn er þvottadaginn næsta áður lifa 8 vikur sumars. Prestur sá er þing hefur á að segja til lögheimilis síns á leið og er hann skyldur að segja heimilisbúum sínum 5 til. Ef hann segir eigi til eða tekur hann sér eigi lögheimili að 8 vikum sumars og verður hann útlægur um það 3 mörkum, enda er rétt að stefna honum að þess búanda er hinn vill er sækir, þeirra er hann hefur kirkju haft í þingum það misseri. Sá á sök er vill.

Prestar eiga að selja tíðir sínar og meta eigi dýrara en að 12 mörkum alþinga á milli. 6 merkur skal hann taka, 6 álna aura, en aðrar 6 slíkar sem þar ganga á skulda móti því sem þar eiga héraðsmenn er prestur hefur sér fengið vistar með. Það fé skal presti gjalda í vöru eða búfé eða lögaurum öllum. Ef prestur metur dýrara tíðir sínar en að lögum eða selur og verður hann sekur um það 3 mörkum, enda er hinn eigi skyldur að gjalda honum meira en lögkaup þótt hann hafi dýrara keypt. Þar er land er svo illt yfirferðar eða til farar og á biskup að auka fétöku prests ef hann vill, þótt það sé meira en lögkaup.

Prestur á eigi að syngja fleiri messur en tvær. Prestur á enga að syngja náttmessu nema jólanótt hina fyrstu. Útlægur er hann ef hann gerir eigi svo, enda skal eigi kaupa þá messu að honum.

Prestar eiga að vera hlýðnir biskupi og sýna honum bækur sínar og messuföt. Sá prestur skal syngja messu er biskup vill, en sá eigi er hann bannar þá þjónustu. Prestar skulu eigi fara með sundurgerðir þær er biskup bannar og láta af að höggva kampa sína og skegg og láta gera krúnu sína um sinn á mánuði og hlýða biskupi að öllu. Ef prestur vill eigi hafa það er biskup býður og verður hann sekur um það 3 mörkum og á biskup sök þá og skal sök þá sækja að prestadómi á alþingi og nefna presta 12 í dóm þann og segja þar sök sína fram á hendur honum og skal biskup bera sjálfur kvið um það mál og prestar 2 með honum og skal eiðlaust sækja þá sök. Ef prestur verður sannur að sök og á dómur að dæma á hönd honum 3 merkur að gjalda biskupi, miðvikudag í mitt þing á þingi í búanda kirkju garði annað sumarið eftir. Ef eigi kemur fé fram og skal sækja sem annað dómrof.

Ef prestar koma út hingað til lands þeir er fyrr hafa út hér verið og biskup lofaði þeim að veita tíðir og er mönnum rétt að kaupa tíðir að þeim, lengur er þeir hafa sýnt biskupi bækur sínar og messuföt, eða þeim presti er biskup býður um. Ef útlendir prestar koma út hingað, þeir er eigi hafa hér fyrr verið, og skal eigi tíðir að þeim kaupa og eigi skulu þeir skíra börn nema svo sé sjúkt að ólærðir menn ættu að skíra. Heldur skulu þeir skíra en ólærðir menn ef eigi nær öðrum presti. Þá er rétt að kaupa tíðir að þeim ef þeir hafa rit og innsigli biskups og vitni 2 manna þeirra er hjá voru vígslu hans og segja orð biskups þau að rétt sé mönnum að þiggja alla þjónustu að honum.

Ef biskupar koma út hingað til lands eða prestar þeir er eigi eru lærðir á latínu tungu hvort sem þeir eru ermskir eða gerskir og er mönnum rétt að hlýða tíðum hans ef menn vilja. Eigi skal kaupa tíðir að þeim og öngva þjónustu af þeim þiggja. Ef maður lætur þann biskup vígja kirkju eða biskupa börn er eigi eru latínulærðir og verður hann sekur um það 3 mörkum við þann biskup er hér er áður enda skal sá taka vígslukaupið. Svo skal kirkjur vígja og biskupa börn sem ekki sé áður að gert, þótt þeir hafi yfir sungið er eigi eru á latínu lærðir.