Grágás/7

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Menn skulu trúa á einn guð og á helga menn hans og blóta eigi heiðnar vættir. Þá blótar hann heiðnar vættir ef hann signir fé sitt öðrum en guði, eða helgum mönnum hans. Ef maður blótar heiðnar vættir og varðar það fjörbaugsgarð.

Ef maður fer með galdra eða gjörninga eða fjölkyngi þá fer hann með fjölkyngi ef hann kveður það eða kennir eða lætur kveða að sér eða að fé sínu. Það varðar honum fjörbaugsgarð og skal honum heiman stefna og sækja við 12tar kvið.

Ef maður fer með fordæðuskap, það varðar skóggang. Það er fordæðuskapur ef maður gerir í orðum sínum eða fjölkyngi sótt eða bana fé eða mönnum, það skal sækja við 12tar kvið. Menn skulu eigi fara með steina eða magna þá til þess að binda á menn eða á fé manna. Ef menn trúa á steina til heilindis sér eða fé og varðar fjörbaugsgarð.

Skal eigi maður eiga fé óborið. Ef maður á fé óborið og lætur ómerkt ganga til þess að hann trúir á það heldur en á annað fé eða fer með hindurvitni nokkurs kyns og varðar honum fjörbaugsgarð.

Ef maður gengur berserksgang og varðar honum það fjörbaugsgarð, og svo varðar körlum þeim er hjá eru staddir nema þeir hefti hann að. Þá varðar engum þeirra, ef þeir vinna heftan hann að, en ef oftar kemur að varðar fjörbaugsgarð.