Grágás/8

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Vér skulum halda drottins dag hinn 7. hvern svo að þá skal ekki vinna, nema það er nú mun ég telja. Menn eiga að reka búfé sitt heim og heiman og eiga konur að heimta nyt af því og bera heim hvert sem skal að menn beri heim eða ferja á skipi eða á hrossi ef vötn ganga á milli bæjar og stöðuls og eiga konur að gera til nyt þá. Það er mælt ef eldur kemur í hús manns eða í andvirki hvert sem er eða ganga vötn að eða skriður eða ofviðri á hverja lund er þeir hlutir vilja meiða fé manns og skal hann svo bjarga allir björg við skaða sem þá að rúmheilagt sé. Ef fé manns verður sjúkt í haga úti og er honum rétt að reiða heim ef það hefur þá heldur líf, enda er honum rétt af að láta það fé og gera til sem þá að rúmheilagt væri.

Maður á að fara förum sínum drottins dag og á hvert þeirra að hafa hálfa vætt sinna fata og á enginn þeirra öðrum að veita þótt annar hafi meiri föt en annar minni. Þeim er rétt að bera á sjálfum sér eða fara á skipi eða bera á hrossi. Maður á ok að fara með göngumannaföt drottins dag þótt það vegi meira ein hálfa vætt. Maður á og að fara með þingföt sín og með mat þótt meira vegi en hálfa vætt það er hann skal á alþingi hafa. Rétt er að hafa hálfa vætt varnings umfram ef hann vill.

Ef maður hefur meiri klyfjar, enda kemur hann þvottadag, og er bóndi skyldur að ala þá um helgina. Svo skulu þeir til skipa að maður hafi að varðveita klyfjahross eitt eða 2 menn 3 ef svo gegnir heldur. Bóndi er skyldur að ala þingmenn jafnmarga hjúum þá er fyrstir koma og fara til öndverðs þings og að þinglausnum af þingi. Útlægur er bóndi ef hann synjar 3 mörkum og á sá sök er vistar er synjað og er rétt þá að stefna þegar og kveðja búa 5 á þingi.

Manni er rétt að fara, þótt drottins dagur sé, til sels með byttur eða með sleða eða með andvirki sitt, þótt það vegi meira en hálfa vætt hvert er er. Þess er hann þarf í gegn að hafa skrúði því er hann vill úr selinu fara eftir helgina. Manni er rétt að fara þótt drottins dagur sé á rekastrandir eða í skóga ef hann á með andvirki sitt það er hann þarf í gegn að hafa af viði eða kolum þeim sem hann vill heim færa eftir helgina. Svo skulu þeir til ætla að þeir hafi eigi fleiri hross en maður hafi eitt í togi. Eigi varðar að hestar renni eftir lausir.

Föt er rétt að þurrka úti þótt drottins dagur sé eða vöru, ef menn eru nauðstaddir að. Ber er og rétt að lesa og heim að hafa eigi meira en menn hafi í höndum sér. Þar er maður færir bú sitt í fardögum drottins dag, þá er honum rétt að reka málnytu sína til þess bæjar er hann skal búa á þau misseri. Eigi skal þá ferja yfir vötn eða reiða. Ef maður finnur sauð í rétt um haust og er honum rétt að fara heim með hvernig sem hann vill að reiða eða fara annan veg með. Ef maður kaupir geldfé á haust og er honum rétt að reka heim og með fara þótt drottins dagur sé. Hann skal eigi ferja um vötn eða reiða.

Ef menn koma af hafi og eru menn svo staddir að mönnum sé háski eða fé þeirra eða þótt menn ferji farma hér fyrir land fram og er rétt að hrjóða skip og bera farm af þótt drottins dagur sé ef þeim þykir fé eða skip í háska nokkrum. Hver maður þeirra er þar var skal hafa gefið á 7 nóttum hinum næstum frá því er þeir ruddu skipið alin vaðmáls eða ullarreyfi þeirra er 6 geri hespu gefa þeim mönnum er svo lítið fé eiga að eigi gjalda þingfararkaup. Sekur er maður um 3 mörkum ef hann gefur eigi. Sá á sök er vill.

Maður á og að fiskja drottins dag eða messudag eða veiða annað ef hann vill. Hann skal hafa messu um morguninn áður og láta eigi veiðina standa fyrir tíðasókninni. Ef hann hagar annan veg og verður hann útlægur um það 3 mörkum.

Ef maður finnur rekatré af skipi og er honum rétt upp að leggja. Ef tré er meira en hann megi upp leggja og skal hann eigi höggva í sundur. Rétt er honum að flytja að landi og gefa af hinn 5. hlut. Ef maður finnur rekatré á fjöru sinni og á hann upp að velta þótt drottins dagur sé úr flæðarmáli. Ef hann má eigi upp koma og á hann þá að marka tré. Eigi skal hann í sundur höggva. Hann eignast hvert það er á land kemur ef hann hefur lögmark á lagt.

Það er mælt um drottins daga veiði alla og messudaga veiði þar skal gefa af hinn 5. hlut og hafa gefið á 7 nóttum hinum næstum frá því er veitt er það skal gefa innanhreppsmönnum, þeim er eigi gegna þingfararkaupi. Ef maður gefur eigi svo og verður hann sekur um það 3 mörkum. Sá á sök er vill. Ef maður fer för sinni drottins dag og kemur hann að þar er löghlið er aftur bundið og á hann að brjóta upp þótt heilagt sé. Hinn er útlægur er hlið batt.