Hafísinn
Útlit
Hafísinn
Höfundur: Matthías Jochumsson
Höfundur: Matthías Jochumsson
- Ertu kominn, landsins forni fjandi?
- Fyrstur varstu enn að sandi,
- fyrr en sigling, sól og bjargarráð.
- Silfurfloti, sendur oss að kvelja!
- situr ei í stafni kerling Helja,
- hungurdiskum hendandi´ yfir gráð?
- Svignar Ránar kaldi móður-kviður,
- knúinn dróma, hræðist voðastríð,
- stynur þungt svo engjast iður;
- eins og snót við nýja hríð.
- Hvar er hafið? hvar er beltið bláa,
- bjarta, frjálsa, silfurgljáa?
- ertu horfin, svása svalalind? -
- Þá er slitið brjóst úr munni barni;
- björn og refur snudda tveir á hjarni,
- gnaga soltnir sömu beinagrind.
- Þá er úti´ um frið og fagra daga,
- frama, dáð og vit og hreystiþrótt,
- þá er búin þjóð og saga,
- þá er dauði, reginnótt.
- Hvar er hafið? Allt er ísköld breiða,
- eins og draugar milli leiða
- standa gráir strókar hér og hvar.
- Eða hvað? er þar ei komin kirkja?
- Kynjamyndir! hér er létt að yrkja:
- hér eru leiði heillar veraldar!
- Hundrað þúsund kumbla kirkjugarður,
- kuldalegt er voðaríki þitt,
- hræðilegi heljar-arður!
- hrolli slær um brjóstið mitt.
- Þú átt, hafís, allt, sem andann fælir,
- allt, sem grimmd og hörku stælir,
- án þess samt að örva þrek og móð.
- Fornjóts bleika, fimbulkalda vofa,
- fjötruð hlekkjum þúsund ára dofa,
- þú hefir drjúgast drukkið Íslands blóð.
- Hvaðan ertu? Enginn veit þín kynni,
- enginn skilur þig né sækir heim,
- þú ert úti, þú ert inni -
- þú ert kominn langt á sveim!
- Andi þinn mér innst til hjarta leggur;
- eiturkaldur smýgur, heggur
- Jörmungandur gegnum lífs míns rót.
- Ótal þúsund örvabroddar glitra,
- ótal þúsund sólargeislar titra,
- skjálfa hræddir hörku þinni mót.
- Fyrir sólu stuðlabergin stikna,
- storm og þrumu hræðist voldug björk:
- þitt mun aldrei veldi vikna,
- voðaslungin eyðimörk!
- Segulheimur, hverjum ertu byggður,
- himins reiðilogum skyggður,
- kringum Norðra kaldan veldisstól?
- þruma nornir þar hjá Urðarbrunni
- þagnarmál sem loka feigum munni?
- Á þar möndul auðnu vorrar hjól?
- Er þar rituð rún á segulspjaldi,
- reginmál og dularkrafta teikn?
- Horfa þar frá himins tjaldi
- heimsins gátu fimbulteikn?
- Enginn svarar. Innst í þínu djúpi,
- undir dauðans fölva hjúpi
- leynist máske líf og hulin náð.
- Eitthvert geysi-hlutverk víst þú hefur,
- heljarlík, sem árþúsundir sefur?
- Hver má þýða heilög ragna ráð?
- Ertu, kannske, farg, sem þrýstir fjöður
- Fólgins lífs og dulinskraftur elds,
- fjörgar heilsu-lyfjum löður,
- læknir fjörs og stillir hels? -
- Veikur maður, hræðstu eigi, hlýddu,
- hreyk þér eigi, þoldu, stríddu.
- Þú ert strá, en stórt er Drottins vald.
- Hel og fár þér finnst á þínum vegi;
- fávís maður, vittu, svo er eigi,
- haltu fast í Herrans klæðafald!
- Lát svo geisa lögmál fjörs og nauða,
- lífið hvorki skilur þú né hel:
- Trú þú: - upp úr djúpi dauða
- Drottins rennur fagrahvel.