Halla/11

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
villa í sniði: ekki fjarlægja auðar breytur (sjá nánar í skjölun sniðs.
Halla höfundur Jón Trausti
{{{athugasemdir}}}

Það varð uppi fótur og fit um alla sveitina, þegar sú saga var að berast út, að Halla væri trúlofuð Ólafi sauðamanni.

Það var einmitt um það leyti, sem allur fjöldi vinnufólks var að hafa vistaskipti, og það var sannarlega ekki amalegt að geta flutt inn í nýju vistina með slíka sögu!

En vistaflutningarnir hrukku ekki til. Þörfin á því að útbreiða söguna nógu fljótt var meiri en svo.

Samgöngur ukust til stórra muna um alla sveitina. Allir umrenningarnir léttu akkerum; því nú var erindi fyrir höndum og von um góðar viðtökur hjá hverri húsfreyju.

Bæjakærar vinnukonur ætluðu að springa af óþolinmæði eftir að geta fengið orlof til næsta bæjar með söguna, og fjármennirnir skutust heim á bæina til skiptis, sinn daginn á hvern bæ, ekki svo mjög mikið til að bera söguna, því þeir vissu, að það voru aðrir búnir að því fyrir löngu, heldur til að heyra, hvað um hana væri talað.

Útgáfurnar voru orðnar margar, en innihaldið var auðvitað ætíð hið sama, sem sé, að þau væru trúlofuð, Halla og Ólafur.

Það gerði ekkert til, hvað hissa menn stóðu eða hvað menn sögðu. Þau voru trúlofuð, opinberlega trúlofuð. Því urðu menn að trúa, hvernig sem það gekk.

Flestir höfðu auðvitað söguna aðeins frá heimilisfólkinu á prestssetrinu, eða öðrum, sem við eitthvað af því höfðu talað. En þeir voru líka til, sem höfðu hana eftir Höllu eða Ólafi, eða þeim báðum í sameiningu.

Þar að auki hafði Ólafur sjálfur skotist heim á ýmsa bæi frá sauðum sínum, sagt frá þessu og farið ekkert dult með.

„Fína fólkið“ notar trúlofunarspjöld til að útbreiða þessa gleðilegu frétt; Ólafur hafði engin tök á því, en gerði það sama í eigin virðulegu persónu.

Mönnum varð að vísu tíðrætt um tildrög og afleiðingar þessara merkilegu tíðinda, því geturnar voru margar og spádómarnir margir og ólíkir.

En tíðræddast varð mönnum þó um sjálfan atburðinn, en þó einkanlega um það, að Halla skyldi taka Ólafi. Annað eins hafði engum manni komið til hugar.

Allir báru Höllu það orð, að hún væri afbragðsstúlka, og öllum kom líka saman um það, að hún væri einkar snotur stúlka; sumum þótti hún auk heldur hreint og beint falleg. En allir höfðu líka skilið hana á þann veg að hún vissi vel um þessa kosti sína og væri ekki laus við að miklast af þeim. Þess vegna höfðu allir búist við því, að hún veldi sér veglegra gjaforð en nú varð raun á.

Og nú lagðist ekki meira fyrir hana en þetta!

Enginn var Höllu svo misviljaður, að hann áliti þetta jafnræði fyrir hana; að minnsta kosti þorði enginn að koma upp með aðra eins fjarstæðu. Flestir aumkuðu Höllu fyrir þetta gjaforð; en til voru þeir einnig, sem sögðu, að henni væri þetta mátulegt; hún hefði lengi verið nógu hnakkakert.

Sumir töluðu vel um og sögðu, að vel gæti orðið úr þessu farsælt hjónaband, því Ólafur yrði eflaust góður við Höllu; aftur sögðu aðrir, að Halla væri ekki mannvönd, þar sem hún gæti tekið Ólaf fram yfir alla aðra, sem leikið hefði hugur á henni.

Ummælin voru því nær eins mörg og mennirnir, og hvert hafði sitt einkenni að einhverju leyti.

En yfirleitt lagðist í menn einhver ónotagrunur um það, að hér væru duttlungafullar örlaganornir að vefa einhvern sjaldgæfan óheillavef, og að þetta hjónaband mundi naumast vel fara. -

Heima á prestssetrinu var undrunin einna mest í svipinn. Þar þekkti hvert mannsbarn þau bæði, og enginn ætlaði að geta trúað augum sínum og eyrum til þess, að þau væru orðin hjónaefni.

Það var fyrst í stað eins og öllu heimilisfólkinu hefði verið rekinn rokna löðrungur. - þess konar löðrungar eru að vísu ekki allsjaldgæfir; en það þykir samt slæmt að fá þá, þegar ekki er við þeim búist.

En svo áttaði fólkið sig á þessu. Og án þess nokkur talaði um það við aðra, var þó eins og það væri samþykkt í einu hljóði, hvernig með málið skyldi fara.

Nú mundi hver einasta manneskja eftir ótal atvikum, sem bentu á það, að þau Halla og Ólafur hefðu verið lengi, lengi leynilega trúlofuð!

Allir gátu sagt, hver fyrir sig: Ég var húinn að komast að þessu fyrir lifandi löngu!

Sumir voru jafnvel svo skarpskyggnir, að hafa tekið eftir þessu löngu fyrir jól um veturinn!

Að vísu var hyggilegra að bjóða utanbæjarmönnum þetta en heimilismönnum sjálfum.

En þar féll það líka sannarlega í mildan akur. Þeir voru ekki svo fáir, sem komust að þeirri niðurstöðu, að það væri ekki á allra meðfæri að fara í kringum það, fólkið á prestssetrinu.

Úrræðið ætlaði að heppnast ágætlega. Halla heyrði allt skvaldrið út undan sér og studdi blessað fólkið í þessari blekkingu, meðal annars með því að gefa í skyn, að það hefði rétt fyrir sér, því þau Ólafur væru búin að leyna þessu lengi.

Að öðru leyti vatt hún af sér með lagni öllum frekari spurningum manna og var fáorð um hagi sína og fyrirætlanir, eins og hún hafði áður verið.

Gömlu prestsekkjunni fór eins og öðrum. Það tókst líka að glepja hennar gömlu, gætnu augum sýn. Hún var eina manneskjan, sem hafði rennt grun í það rétta seinni part vetrarins; en nú tók hún að efast um, að sér hefði sýnst rétt.

Hún hafði ekki haft orð á því við neinn; það var líka betur farið, úr því henni hafði skjátlast.

Hana var líka farið að gruna það nú þegar, á undan öllum öðrum, að nauður ræki Höllu til að opinbera þetta, þótt ekki yrði það enn þá beinlínis ráðið af útliti hennar. Nú þóttist hún skilja, að einnig það væri af Ólafs völdum.

Og þegar hún óskaði Höllu til hamingju, gerði hún það með miklum innileik og lét orð falla um það um leið, að þótt hún hefði að vísu viljað unna henni betra gjaforðs, þá hefði hún þó verið hrædd um hana fyrir enn þá meiri ógæfu en þeirri, að eiga hann. En hún lofaði guð fyrir, að það hefði aðeins verið ástæðulaus ótti.

Halla spurði einskis. Hún skildi vel, við hvað hún átti. Og hún varð þessum ummælum innilega fegin, því án þeirra hefði hún verið í efa um hugsanir gömlu konunnar. Nú heyrði hún, að hún hafði líka látið blekkjast. Hvað þá aðrir.

Allt þetta skraf fór ekki svo, að presturinn heyrði það ekki eins og aðrir. Sumir, sem farnir voru að verða honum málkunnugir, höfðu líka gaman af að segja honum frá því, að fyrir honum lægi innan skamms að gefa saman brúðhjón.

Hann þyrsti eftir því að heyra meira og meira af því, sem um þennan atburð var talað, og honum var sönn nautn að því að sjá og heyra, hvernig tekist hafði að leika á fólkið.

Hann fann skýin dreifast frá sínu eigin höfði. Almenningsálitið var leitt inn á þær villigötur, að það þurfti hrapallega slysni til, að það hitti nokkurn tíma á þá réttu.

Nei, nú var honum borgið. En hann gat ekki nógsamlega dáðst að því, hvert afbragð Halla var og hve snilldarlega hún hafði efnt heit sitt.

Hann sárlangaði til að ná fundi hennar einu sinni enn þá, þakka henni fyrir frelsun sína og hrósa henni fyrir kænskuna.

En þess var enginn kostur. Nú sneiddi Halla hjá honum eins og bráðókunnugum manni, eða jafnvel eins og fjandmanni sínum, þá fáu daga, sem þau áttu eftir að umgangast hvort annað.


Halla var óvistuð um krossmessuna; það hafði hún aldrei verið áður. En svo stóð á því, að hún vildi ekki yfirgefa húsmóður sína, prestsekkjuna, meðan hún enn þá þyrfti sín við. En hún hafði jörðina fram að fardögum. Þangað til þurfti hún á vinnufólki að halda, og sumt af hennar gamla vinnufólki var hjá henni, en annars skiptust nágrannar og gamlir vinir á um að lána henni mannhjálp. Þeim fannst það vera síðasti greiðinn, sem þeir mundu fá tækifæri til að gera henni, því eftir þetta voru litlar líkur til, að hún hefði mikið um sig.

Ólafur var vistráðinn á öðrum bæ þar í sveitinni og fékk nú því til vegar komið, að Halla fengi að vera þar í húsmennsku hjá sér, þegar hún færi frá prestssetrinu. Hann vissi vel, að ástæða var til að hlífa henni við allt of þungri útvinnu þetta sumar, og því var sjálfsagt, að hún væri sjálfrar sín.

Umtalið um trúlofun þeirra Höllu og Ólafs hjaðnaði niður smátt og smátt. Menn þreyttust á að tala um það til lengdar og reyndu að vinna sér mestan mat úr ýmsum öðrum umtalsefnum.

Halla sá vel, hverju fram fór, og var ánægð með það. Nú voru þau utan skerja með leyndarmál sitt, hún og presturinn; nú var lítil eða alls engin hætta á því framar, að það yrði almenningi til gamans og þeim til vanheiðurs.

En þegar hættan, sem yfir þeim hafði vofað, var þannig afstaðin, fór Halla að hafa betri tíma til að hugsa um kringumstæður sínar og hvað hún hefði lagt í sölurnar. Nú fyrst varð henni óhamingja sín ljós til fulls.

Hún hugsaði mikið um það og grét oft yfir því í einrúmi, en á dagfari hennar sást lítil breyting. Hún herti sig upp eins og hún gat til að dylja harm sinn.

Hún hafði áður um ævina fengið talsverða æfingu í því að leyna tilfinningum sínum og koma fram önnur en hún var. Nú kom sú æfing henni að góðu haldi, því undir þessari list var framtíð leyndarmálsins komin.

En þetta gervi hennar færðist fljótt í áttina til að verða hennar annað eðli. Það óx og þroskaðist og varð henni svo tamt, að hún notaði það án þess að hún vissi af því. Gríman varð holdgróin og var það þaðan af.

En innan undir þessu ískalda gervi færðist hin eiginlega Halla meira og meira saman utan um helgidóm sinn, sem geymdi dánar vonir og kærar minningar ástar og unaðar og sárra harma.

Allt þetta var nú vandlega grafið, gröfin innsigluð og trúlega yfir henni vakað.

Þau Ólafur og Halla fundust næstum daglega eftir að hann fór burtu af prestssetrinu. Honum þótti innilega vænt um hana, vildi gera henni til geðs og mátti helst aldrei af henni líta.

Hún var glöð og góð við hann aftur á móti. Henni féll það fremur erfitt í fyrstu, en henni tamdist það eins og svo margt annað. Hún var búin að sannfæra veslings Ólaf um það, að henni þætti í raun og veru vænt um hann.

Þau töluðu oft um framtíð sína, og Ólafur leitaði ráða til hennar um flest, sem hann tók sér fyrir hendur. Einna tíðræddast varð þeim þó um framtíðarbústað sinn, því nú var það auðsætt, að þau þurftu að sjá sér fyrir búi og jarðnæði.

Halla stakk upp á því, að Ólafur reyndi að fá byggingu fyrir Heiðarhvammi, sem var kot þar frammi með fjallgarðinum og í eyði um þessar mundir, en þó stóð þar eitthvað af bæjarhúsum. Ólafur átti að fá orlof um haustið, til að hressa þar við, og svo áttu þau að flytja þangað næsta vor, þegar vistráðum hans væri lokið.

Heiðarhvammur var dágott kot, mikill og góður heyskapur og landkostir ágætir, meðan til jarðar náði; en vetrarþungt mjög. Það mælti líka með kotinu, að það lá handan við ána, sem aðskildi hreppana, og tilheyrði því Dölunum. En það var framfærslusveit Ólafs.

Ólafi leist vel á þetta. Hann sá ekkert annað í svipinn heldur en það, hvað féð yrði vænt á afréttarbýlunum, og hugsaði með ánægjubrosi til kindanna sinna. Honum fannst þetta líka bera nýjan vott um það, hvílíkt búkonuefni Halla væri.

En Höllu gekk allt annað til að flytja fram í Heiði en umhyggja fyrir kindunum.

Hún vildi vera ein og afskekkt. Hún vildi leita uppi einhvern þann stað, þar sem hún gæti að mestu grafið sjálfa sig og harma sína, svo enginn fyndi það. Henni var umgengnin við aðrar manneskjur meira og meira ógeðfelld, og það var sem hún gengi með stöðugum kvíða fyrir því, að sér tækist ekki að leyna leyndarmálum sínum, að sér fipaðist í einhverju, eða eitthvert nýtt ólán kæmi fyrir, sem stafaði frá mönnunum, sem hún þyrfti að umgangast.

Sól hamingju hennar var gengin undir. Hún varð með hverjum degi kaldari, tortryggnari og skeytingarlausari um allt og alla. Og nú þráði hún einveruna mest af öllu - einveruna frammi í óbyggðum, langt frá öllum algengum mannavegum.


Síra Halldór fékk ekki tækifæri til að tala um sending heilags anda á sunnudaginn eftir kóngsbænadag. Það kom svo fátt til kirkjunnar, að ekki var messufært.

Meðhjálparinn kom og hélt langa ræðu í hlaðvarpanum um hnignandi guðsótta og kirkjurækni, yfir prestinum og tveimur-þremur sálum öðrum. Hann var nú maður um sextugt og hafði haldið sömu ræðuna í minnst 30 ár.

Þegar liðið var langt fram á messutímann, kom forsöngvarinn, blindfullur og allur leirugur, hafði farið ríðandi að heiman um morguninn, en dottið af baki og að lokum týnt klárnum og kom nú gangandi.

Hann var í illu skapi yfir því, að hafa gert sér allt þetta ómak, og svo yrði engin messa, og svo rauk hann af stað sótbölvandi og kallaði heim til prestsins og þeirra, sem á hlaðinu stóðu, að það mætti sjálfur andskotinn vera forsöngvari í sinn stað framvegis.

En presturinn lét það berast út með fólkinu, að eftir næstu helgi þyrfti hann að fara í langferð, og mæltist óbeinlínis til, að menn sæktu þá kirkjuna til að hlusta á kveðju sína og heyra ráðstafanir sínar. Þær fáu sálir, sem komið höfðu til kirkjunnar, voru auðvitað fúsar til að útbreiða þennan boðskap.

Alla vikuna var presturinn lítið heima. Hann hafði í svo mörgu að snúast um þessar mundir. Hann þurfti að finna nábúaprestana og biðja þá að þjóna fyrir sig í fjarveru sinni, og hann þurfti að fá menn til að taka við staðnum fyrir sína hönd og margt og margt fleira, því hann gerði ekki ráð fyrir afturkomu sinni fyrr en komið væri fram á sumarið.

Sunnudaginn eftir varð messufært, svo presturinn fékk þó tækifæri til að kveðja söfnuðinn.

Engan sérlegan söknuð var á mönnum að finna. Það var nú þegar svo komið, að flestum stóð á sama um þennan prest sinn.

En þó kom einn maður til kirkjunnar, sem ekki stóð algerlega á sama um hann að þessu sinni, og það var Ólafur sauðamaður.

Ólafur þorði þó ekki að ganga í berhögg við prestinn heima á heimilinu, eða biðja hann um eintal, einkum vegna Höllu. Hann var hræddur um, að hana kynni að gruna eitthvað um erindið. En það vildi hann fyrir hvern mun varast.

En hann hafði komist að því, að prestur þurfti að heiman seinna um daginn, og gerði sér allt til tímatafar, þar til allir gestir voru farnir og prestur ferðbúinn, og fór þá af stað rétt á undan honum og í sömu áttina.

Prestur var ríðandi, en Ólafur gangandi, og dró því fljótt saman með þeim.

Þegar þeir voru komnir vel í hvarf frá prestssetrinu, heið Ólafur eftir presti og sagði honum með mestu hæversku, að hann ætti einslegt erindi við hann, og spurði, hvort hann gilti ekki einu, þótt þeir ræddu um það þar.

Prestur varð hljóður við. Hann grunaði hvert erindið mundi vera.

Hann fór þó af baki, en nöldraði eitthvað um það, að hann þyrfti að hraða sér. Svo settust þeir niður í ofur litla brekku, sem nýfarin var að grænka.

Ólafur fór í sakirnar með mestu hægð og hafði langan inngang um mannlegan breyskleika, ólán og mæðu og þar fram eftir götunum, sem hann skildi ekki annað en prestinum hlyti að vera þóknanlegur, þar sem það var allt brotagull úr gömlum stólræðum.

Loks komst hann að efninu.

Hann sagði, að Halla hefði tjáð sér öll sín vandræði og beðið sig ásjár, og hann hefði kennt í brjósti um hana, því sér hefði lengi þótt vænt um hana; það hefði verið hún, sem hann hefði svo oft minnst á við prestinn fyrr um veturinn. Hann hafði því ekki gefið henni afsvar, en ekkert væri enn þá bundið neinum fastmælum. Nú væri það undir honum komið, hvern enda þetta tæki.

Hann lýsti því með mörgum og fögrum orðum, að nú lægi fyrir þeim að reisa bú, en þau væru bæði bláfátæk.

Þar á móti ætti nú presturinn að taka við ágætisbújörð og tekjumiklu prestakalli og mundi innan skamms verða efnaður maður.

Það var því aðalerindið að spyrja hann, hvort honum fyndist það ekki vel til fallið, og hvort honum væri það ekki ljúft, eins og nú stæði á, að blessa efni þeirra með dálítilli viðbót. Það þyrfti ekki að vera mikið til að þeim drægi það.

Ólafur sagði þetta allt með miklum auðmýktarblæ, bæði í fasi og málróm. En það hefði ekki þurft glöggt auga til að sjá, að á bak við þessa auðmýktargrímu bjó glott öryggis og sjálfstrausts hins sterka.

Presturinn fann þetta líka vel, þótt hann liti meira niður fyrir sig en framan í Ólaf.

Það fór hrollur um hann við þá hugsun, að nú væri leyndarmál hans komið í hendur þessum manni, sem honum þótti jafnvel líkur til, að mundi nota það fyrir keyri á sig alla ævi. Aldrei hafði honum boðið eins við Ólafi sauðamanni eins og nú.

En jafnframt var hann hræddur við hann. Það lá við, að hann léti gremju sína í huganum bitna á Höllu, fyrir að hafa valið einmitt þennan mann.

En Ólafur hélt áfram með sama kattarmjúkleikanum og áður.

Hann sagði, að þótt sér þætti vænt um Höllu og hann vildi margt fyrir hana og til hennar vinna, þá hefði hann þó aldrei gert þetta, ef einhver annar hefði átt hlut að máli. Ef hann tæki þetta á sig, þá gerði hann það engu síður hans vegna. Þeir væru nú orðnir ofur lítið málkunnugir, og sér væri farið að þykja dálítið vænt um hann. Hann hefði verið sá eini af öllum heldri mönnum, sem hefði sýnt sér það lítillæti að tala við sig, og aldrei dregið dár að sér, litið á sig smáum augum eða skapraunað sér. Þess vegna væri sér nú ljúft að firra hann vandræðum, ef þess væri kostur.

„Ég skal gefa með barninu fulla meðgjöf í kyrrþey, ef það lifir, eða meðan það lifir. Er það ekki nóg?“ sagði prestur stuttur í spuna.

„Haldið þér að það sé hyggilegt?“ mælti Ólafur með ofur litlu hiki, sem ekki kom þó af því, að hann væri ekki búinn að hugsa svarið fyrir löngu, heldur af uppgerðarhæversku. „Ég er hræddur um, að einmitt á þann hátt komist leyndarmálið upp. Menn veita því eftirtekt, ef okkur fara árlega einhver slík skipti á milli. Þar að auki verður þá ómögulegt að fara á bak við Höllu með það. En það vildi ég þó einmitt gera. Hún er skapstór, og ég þekki hana svo vel, að hún vill alls enga meðgjöf af yður þiggja, hvað mikið sem hún þarfnaðist hennar. - Nei, ég hafði hugsað mér, að hyggilegra væri, að þér laumuðuð einhverju ofur litlu að mér í kyrrþey í eitt skipti fyrir öll, og við létum svo þar við sitja.“

Presturinn fann það vel, í hverri klípu hann var staddur. Það gerði minnst til, hvað hann sagði, því hann var algerlega á valdi Ólafs. Það, sem hann fór fram á, varð hann að uppfylla, hvað sem það væri.

„Hvað mikið viljið þér fá?“ hreytti hann út úr sér.

„Sextíu spesíur“, svaraði Ólafur. Stuttleiki prestsins hafði heldur eytt auðmýktinni, svo rómurinn var nú talsvert ákveðnari og einbeittari.

Presturinn hristi höfuðið. Hvar átti hann að taka sextíu spesíur?

„Það er ekki nema dálítill hluti af framfæri barnsins til fermingaraldurs. En við það verður þó að sitja“, mælti Ólafur, þegar hann sá, að prestur tók þessu dræmt.

Prestur horfði framan í Ólaf dálitla stund. Hann var að reyna að lesa út úr honum, hvaða eftirköst það mundi hafa, ef hann segði þvert nei.

Andlitið á Ólafi var eins og það var vant, syfjað og sviplítið, en þráalegt eins og sauðarandlit.

Það fóru ónot um prestinn við að horfa á það til lengdar. Það var heldur ekkert undanfæri, og best að gera enda á þetta sem fyrst og losna frá þessari mannfýlu.

„Er þá úttalað um þetta mál, ef ég geng að þessu?“

„Já, úttalað um það að eilífu“, mælti Ólafur, mýkri í máli við það að finna bilbug á prestinum.

„Og má ég þá treysta yður?“

„Hér er hönd mín.“

„Og drengskapur -!“ mælti prestur og bætti við í hálfum hljóðum: „ef um nokkuð slíkt er að ræða.“

„Og drengskapur“, endurtók Ólafur, og svo tóku þeir höndum saman.

„Þér skuluð fá þessar sextíu spesíur annaðhvort áður en ég fer eða strax og ég kem aftur, - þótt ég þurfi að flá mig inn að skyrtunni til að komast yfir þær. Verið þér sælir upp á það.“

Hann stökk á bak og reið hvatlega leið sína. Ólafur stóð á götubakkanum og leit glottandi á eftir honum.

Svo sigu augnalokin niður yfir augun; Ólafur lagði hendurnar á hrygginn og rölti á stað til sauða sinna, - reiknandi í huganum kindaverð og spesíur.


Þegar presturinn var farinn af stað í langferðina, fór gamla prestsekkjan að búa sig undir brottför sína af prestssetrinu.

Það var allstórt bú sem þurfti að koma í verð. Hún hafði allan veturinn og vorið verið að selja lifandi fénað eftir hendinni. Nú varð að selja það á uppboði, sem eftir var, ásamt miklu af búshlutum og lausafjármunum.

Uppboðið stóð í fulla tvo daga og var mjög fjölsótt. Veður voru ágæt þá dagana, eins og fleiri um vorið, og þessi góða vortíð hleypti í menn hugmóði til að bjóða ríflega, auk þess sem gamlir vinir gerðu sér allt far um að koma mununum í sem best verð.

Gamla konan sýslaði stöðugt sjálf um þetta með óþreytandi elju og umhyggjusemi. Hún var hljóð og alvarleg eins og hún átti að sér. Hún var fyrir löngu búin að venja sig við þá hugsun, að hún ætti að sjá allar þessar eigur, sem hún hafði varið allri ævinni til að safna og hirða um, fara á víð og dreif.

Hún hafði kviðið fyrir því lengi; en nú þegar að því var komið, tók hún sér það ekki eins nærri og hún hafði haldið.

Það dró líka úr sorg hennar að sjá vináttuþel og hjálpsemi, hvert sem hún leit, og eins hitt, að munirnir komust í viðunanlegt verð. Það fannst henni vottur um það, að þeir væru í viðunanlegu standi, og það þótti henni vænt um.

Halla var hennar önnur hönd í öllu þessu umstangi. Gamla konan fann það alltaf betur og betur, hve ómissandi hún var henni. Þeim líkaði nú orðið svo vel hvorri við aðra, að þær kviðu hvor fyrir sig mest af öllu fyrir því að þurfa innan skamms að skilja.

Halla var líka orðin hljóðari og alvarlegri nú og meir að skapi gömlu konunnar. Það var eins og hún hefði elst mjög á örstuttum tíma, þrátt fyrir æskulitinn, sem enn þá var á andlitinu.

Þegar leið að fardögunum, var allt selt og burtu flutt, nema það litla, sem gamla konan ætlaði að hafa með sér í elli sinni. Ofanálagið, sem hún þurfti að greiða var mjög lítið.

Svo flutti fólk prestsins inn í bæinn, en hennar út, og hún sjálf að lokum til bæjar þess, er hún hafði valið sér til samastaðar, það sem eftir var ævinnar.

Halla fylgdi henni alla leið heim að bænum, þar sem hún ætlaði að vera, og hjálpaði henni að lokum til að koma sér þar fyrir og búa sem best um sig. En þegar Halla fór af stað, gekk gamla konan með henni út fyrir túnið. Hún vildi kveðja hana í einrúmi.

Þegar þær voru komnar þangað, settust þær niður.

Þær voru báðar hljóðar og alvarlegar, og gamla konan horfði þegjandi á Höllu um stund og virti hana fyrir sér. En Halla leit niður fyrir sig og fitlaði við nýútsprungna blásóley, sem hún hafði slitið upp.

Gamla konan rauf þögnina.

„Halla mín“, sagði hún. „Þú leynir mig einhverju - einhverju, sem liggur þungt á þér; viltu nú ekki trúa mér fyrir því, hvað það er? Hver veit nema ég geti eitthvað hjálpað þér. Mig tekur sárt til þín, Halla mín, segðu mér satt, hefirðu ekki ratað í einhverja óhamingju?“

Hún lagði hendina innilega á öxlina á Höllu og horfði á vangann á henni á meðan hún beið eftir svarinu.

„Nei“, stundi Halla upp, svo varla heyrðist.

En hún iðraðist samstundis eftir svarinu. Hana sárlangaði til að trúa þessari gömlu, trygglyndu manneskju fyrir öllu leyndarmáli sínu. Hana langaði til að kasta sér um hálsinn á henni og biðja hana fyrirgefningar og ásjár. Hún fann, að hún verðskuldaði fullt traust, og hún fyrirvarð sig fyrir að segja slíkri manneskju ósatt.

En hún hafði engan tíma til að leiðrétta það.

Það setti að henni grát, svo hún gat engu orði upp komið, en hristist af ekka, eins og hún ætlaði að springa.

„Nú, þá er öllu vel farið“, mælti gamla konan og tók aftur til sín höndina. „Ég skal ekki vera of nærgöngul við þig, barnið mitt. Ég hef engan rétt til þess. Mér missýnist eflaust. - En það er kannski af því, að augun eiga nú bráðum að bresta.“

Hún var ekki eins innileg í málrómnmum. Það leyndi sér ekki, að hún var ekki laus við allan efa. Og við seinustu orðin skalf rómurinn.

Hún flýtti sér að standa á fætur til að kveðja. Hún þoldi ekki að horfa á Höllu gráta. Og eftir að hafa talað til hennar nokkrum hughreystingarorðum, bað hún guð innilega fyrir henni og kvaddi hana með kossi.

Halla vafði höndunum utan um hálsinn á henni, eins og hún vildi orðalaust biðja hana fyrirgefningar. Kossinn var fastur og innilegur, og tárin streymdu niður um bæði andlitin.

Það var seinasti vináttukossinn, sem Halla fékk um langa - langa ævi. Og hann var blandinn óeinlægni frá hennar hálfu.

Gamla konan gekk heim til sín, sköruleg og réttvaxin, þrátt fyrir ellina; en Halla gekk áfram götu sína grátin og lotin undir ofurþunga ósannindanna.

En þegar frá leið, sá hún ekki eftir að hafa leynt leyndarmáli sínu, einnig við þetta tækifæri. Það var ekki að vita, hvað gamla konan hefði tekið fyrir, hefði hún vitað alla söguna. Eflaust hefði hún þá farið sínu fram. Nú fannst henni, að allt væri best komið í því horfi, sem það var.